149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:07]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held nefnilega að menn horfi ekki nægilega vel í afleiðingar þess að innleiða þessa orkutilskipun Evrópusambandsins. Ef við skoðum hana, nr. 72/2009, er textinn mjög skýr og þar segir, eins og ég sagði áðan, að það er skylda eftirlitsyfirvaldsins að tryggja engar víxlniðurgreiðslur séu milli flutnings-, dreifingar- og afhendingarstarfsemi.

Það er sem sagt verið að draga úr möguleikum á því að hér sé boðið upp á niðurgreiðslur til þeirra sem hafa ekki hitaveitu, þeirra sem kynda hús sín með rafmagni. Það er afar mikilvægt, sérstaklega fyrir landsbyggðina, á köldum svæðum, að við niðurgreiðum rafmagn til húshitunar ellegar er búsetuskilyrðum á þessum svæðum hreinlega ógnað. Það þarf að standa vörð um þetta. Ég held, herra forseti, að (Forseti hringir.) þarna séum við á mjög hálum ís og í versta falli geti farið svo að ACER (Forseti hringir.) muni hreinlega kæra okkur fyrir að niðurgreiða verð á rafmagni til húshitunar.