149. löggjafarþing — 117. fundur,  5. júní 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:47]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Þetta er mikilvæg spurning og mjög mikilvægt innlegg inn í þessa umræðu. Við komum aðeins inn á það áðan hvaða afleiðingar innleiðing orkupakka eitt og orkupakka tvö hefur haft. Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson kom inn á það áðan hvort það væri ekki eðlilegt að skoða reynsluna af þeirri innleiðingu núna þegar við förum að stíga það stóra skref að innleiða orkupakka númer þrjú. Síðan bíður orkupakki fjögur handan við hornið. Við erum smám saman að taka skref í þá átt að verða fullkomnir þátttakendur í sameiginlegu markaðssvæði raforkunnar í Evrópu og þar með undirgangast stjórnun Evrópusambandsins á þeim málaflokki. Það er gríðarlega stórt skref sem er verið að taka, varðar fullveldismál þjóðarinnar, orkuvinnslu og stjórnun til allrar framtíðar. Auðvitað á að horfa í reynsluna.

Svo ég komi stuttlega inn á Suðurnesin þá var það sem gerðist þar að þessu ágæta fyrirtæki, Hitaveitu Suðurnesja, var skipt upp að kröfu Evrópusambandsins í tvo þætti, orkuvinnsluna og síðan dreifinguna og söluna, þ.e. HS Orka og HS Veitur nú. Það opnar þá leið að einkaaðili kemur inn og það eru misvitrir stjórnmálamenn, sveitarstjórnarmenn á Suðurnesjum, sem í meirihlutakrafti Sjálfstæðismanna í Reykjanesbæ gera það að verkum að ákveðið er að selja í þessu fyrirtæki þvert á loforð um að það yrði ekki gert. Það var t.d. sagt þegar búið var að selja alla Hitaveitu Suðurnesja og menn höfðu áhyggjur af dreifikerfinu að það yrði ekkert selt og ástæðan fyrir því væri sú að mikilvægt væri að dreifikerfið væri í eigu almennings. Hver varð niðurstaðan? Jú, það var seldur hlutur í dreifikerfinu svo langt sem lög leyfðu. (Forseti hringir.) Þið sjáið að það stenst ekkert sem stjórnmálamenn hafa sagt hvað þetta varðar þannig að ég óttast, (Forseti hringir.) forseti, að það sama verði upp á teningnum nú, að ekki verði staðið við það (Forseti hringir.) þegar sagt er að hér verði ekki lagður sæstrengur. Afsakið, herra forseti.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir ræðumenn á að halda ræðutíma. Hann tekur afsökunarbeiðni mjög vel, en bendir þingmanni jafnframt á að hann hefur farið frekar oft frekar mikið fram yfir, en ég held að það fari nú til betri vegar.)