149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

rafræn viðskipti og önnur rafræn þjónusta.

494. mál
[12:55]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið. Ég er sammála, þetta er fyrir mig einn af áhugaverðari punktum í þessu öllu. Við höfum verið að tala töluvert um kjósendur og upplýsingar þar, að tækninýjungar, a.m.k. í orði, eru til þess að einfalda fólki sitt daglega líf. En þegar upp er staðið hefur það líklegast, alla vega þessi tækni sem höfum verið að tala um hér núna, flækt lífið töluvert fyrir kjósendum að standa undir þeirri ábyrgð að vera þátttakendur í lýðræðissamfélagi. Þetta er því gríðarlega stórt mál.

Mig langar í seinna andsvari að hætta mér út á jarðsprengjusvæði af því að hv. þingmaður talaði töluvert um tjáningarfrelsið sem er gríðarlega mikilvægur þáttur í þessu öllu. Ég held að mjög mikilvægt sé fyrir okkur, hvar sem við stöndum á hinum pólitíska vettvangi, að gæta þess að ekki verði farin sú fyrirsjáanlega og stundum sú auðvelda leið að fara að stemma of mikið stigu við því.

Tengt því langar mig aðeins að heyra hugleiðingar hv. þingmanns, af því að ég held að við getum með töluvert mikilli fullvissu fullyrt að helstu forsvarsmenn tjáningarfrelsisins, sem við þekkjum og viljum vernda í dag, sjái kannski ekki þennan heim fyrir sér ef maður veltir því upp. Tjáningarfrelsi var á sínum tíma ætlað fyrir lítilmagnann til að standa upp gegn ráðandi öflum og fá að gagnrýna, fá að setja fram kröfur án þess að það kæmi niður á lífi og limum viðkomandi o.s.frv.

Við erum kannski, a.m.k. í okkar hluta heimsins núna, að kljást við svolítið önnur umsvif tjáningarfrelsisins, ekki síst með þessum tækninýjungum. Þetta er ekki beinlínis spurning, en mig langar að heyra vangaveltur hv. þingmanns, af því að ég veit að hann hefur spáð mikið í þetta, hvað forsvarsmönnum hugtaksins um tjáningarfrelsi þess tíma myndi finnast um fölsku fréttirnar, útbreiðsluna, samfélagsmiðlana og ábyrgðarleysið í dag.