149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[16:28]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Við fjöllum um lítið en afar mikilvægt mál í mörgum skilningi þess orðs. Það er að sjálfsögðu ástæða til að þakka 1. flutningsmanni, hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur, fyrir og öllu því fjölmarga fólki úr mörgum flokkum, sýnist mér, sem fylkir sér á bak við hana. Ég er ekki þar á meðal, sýnist mér, en engu að síður styð ég, eins og allur þingflokkur Samfylkingarinnar, þetta ágætismál. Þetta er auðvitað jafnaðarmannamál þannig að það er auðvelt fyrir flokkinn að taka grundvallarafstöðu með því. Við erum að ræða leið sem eykur líkur á því að það náist jöfnuður í samfélaginu, í þessu tilfelli kynjajöfnuður. Ójöfnuður er af ýmsum toga. Við þekkjum og ræðum mjög mikið um fátækt og eignaójöfnuð sem Samfylkingin talar gegn. Við höfum mótað okkar sýn á skattkerfið út frá m.a. honum þar sem við viljum vera með almenna skatta. Við viljum leggja skatta á fólk eftir getu hvers og eins þannig að þeim sé hlíft sem hafa lítið milli handanna en þeir séu látnir borga meira inn í samneysluna sem eru vel til þess fallnir og geta það auðveldlega.

Við viljum hins vegar forðast að skattleggja fólk mikið þegar kemur að þjónustugjöldum og vörugjöldum; og þess vegna teljum við miklu eðlilegra að vara af þessu tagi, sem er nauðsynjavara sem annað kynið þarf að stórum hluta að nota, sé ekki íþyngjandi fyrir það kyn. Við erum annars vegar að tala um getnaðarvarnir og hins vegar tíðavörur. Notkun getnaðarvarna hefur fyrst og fremst, og í allt of miklum mæli, verið lögð á herðar konunnar, þ.e. að passa sig á ótímabærum getnaði. Til eru margar rannsóknir sem sýna að það hefur áhrif á vinnugetu þeirra og þátttöku í samfélaginu, veldur töfum í námi og öðru slíku. Það er ágætt að nota þetta tækifæri til að minna okkur karlmenn líka á að við þurfum að fara að taka miklu meiri ábyrgð á þeim hluta málsins. Við erum meira en bara æxlunarverkfæri, við eigum að bera ábyrgð á gjörðum okkar og afleiðingum þeirra.

Það er einn hluti málsins. Annar er svo tíðavörurnar sem leggjast eingöngu á konur með mjög óréttlátum hætti. Okkur er frekar tamt að halda að þetta skipti engu máli og við erum sem betur fer það vel í sveit sett á Vesturlöndum að flest fólk hefur nokkuð auðveldlega efni á þeim en það réttlætir hins vegar ekki óþarfa skattlagningu á vöruna. Við ættum kannski að muna að það er kannski ekki svo sjálfsagt að fólk ráði við þetta. Við þurfum ekkert að horfa marga áratugi aftur í tímann til að átta okkur á því að svo var ekki, fyrir utan náttúrlega að varan hefur tekið stakkaskiptum og þróast. Áður fyrr var allt svona miklu meira íþyngjandi

Ég var svo heppinn fyrr í vetur að fá að kynnast Malaví með hv. þm. Áslaugu Örnu Sigurbjörnsdóttur. Það var bæði gleðilegt en líka átakanlegt og sorglegt að kynnast þessu fallega, litríka fólki sem hreif mann, en á sama tíma áttaði maður sig á því að þarna er gríðarleg fátækt. Samfélagið er líka illa haldið af gamaldags hugmyndum og trúarkreddum sem gera það t.d. að verkum að það að vera á túr gerir stúlkurnar í rauninni vanheilagar. Þær fóru ekki í skólann. Eitt af því sem þarf til til að reisa þessa fallegu álfu upp úr fátækt er í gegnum aukið kynjajafnrétti og með því að hvetja stúlkur og konur og hjálpa þeim til náms. Þar þarf bæði að vinda ofan af þeim fordómum sem tengjast því að vera á túr og gera stúlkunum kleift að hafa afdrep til að skipta um og nota tíðabindi og hreinlega hafa efni á því. Okkur finnst kannski fjarstæðukennt að það sé hægt að fljúga í 12 eða 13 klukkutíma og hitta fyrir samfélög þar sem litlar stúlkur hafa hreinlega ekki efni á því. Í þessari ferð vöktu þær, með hjálp innlendra samtaka sem og íslenskra og annarra á Vesturlöndum, máls á þessu til að eyða því tabúi sem þetta er. Þær stóðu á torginu og seldu fjölnota dömubindi, eins og það hét í ungdæmi mínu, bæði til að eyða fordómunum, eins og ég sagði, en líka til að hvetja stúlkur til að vera ófeimnar og benda á að það á ekki að hindra skólagöngu lítils barns eða unglings að þurfa að nota svoleiðis hluti.

Það sem var einstaklega skemmtilegt við þetta var að þarna voru ekki framleiðslu- eða markaðsfyrirtæki sem voru búin að búa til úr þessu steríla vöru sem passar inn í smekk samtímans sem er þannig útlítandi að fólk beinlínis roðni ekki við að taka vöruna og setja hana ofan í kassann. Þó að okkur hafi miðað áfram erum við samt enn alveg bölvaðar teprur.

Þær framleiddu vöruna m.a. í fallegum litum. Hér er þetta mestmegnis blátt. Hér var til umræðu áðan í fleiri ræðum að það er t.d. merkilegt að vara virðist vera dýrari ef hún er í tilteknum lit af því að sá litur eigi að höfða til kvenna en ekki karla. Hér er verið að reyna að vinda ofan af því með veikum mætti, við getum sagt vinna gegn markaðsöflunum sem munu alltaf reyna áfram að ná meiri peningum af fólki og hafa fundið það út að vörur sem konur þurfa að nota, í þessu tilfelli, sé hægt að verðleggja hærra vegna þess að þær þurfi að nota þær.

Þegar hv. þm. Albertína Friðbjörg Elíasdóttir ræddi um þessa mismunandi verðlagningu eftir því hvort hluturinn átti að höfða til kvenna eða karla og að bleikar rakvélar væru töluvert dýrari en bláar rakvélar rifjaðist upp fyrir mér að litirnir, eins og við upplifum þá núna með tilliti til kyns, eru tiltölulega nýlegt fyrirbrigði. Í listasögunni er blái liturinn yfirleitt tengdur konum. María mey var gjarnan og yfirleitt klædd í hvítt og blátt en Jesús og karlarnir í rautt. Blár var litur sakleysisins, hreinleikans, en rauði liturinn litur styrksins og ástríðunnar.

Þannig hélst þetta fram eftir öllum öldum. Það vakti beinlínis hneyksli á sínum tíma þegar máluð var mynd sem hét Blái prinsinn þar sem ósköp sakleysislegur lítill drengur, níu eða tíu ára gamall, er í bláum fötum, Það var kvenliturinn. Síðan fer þetta aðeins að breytast á 19. öld og línurnar verða óskýrari og listamenn fara líka að vera djarfari að ögra viðhorfum samtímans. Það fer að bera á því að menn eru að leika sér með þetta. Síðan verður þetta hluti af einhverri umbreytingu, líka hjá alþýðu manna. Árið 1918 er í Ladies' Home Journal talað um að almenna reglan sé að bleikt sé fyrir stráka og blátt fyrir stelpur, af því að bleiki liturinn sé sterkari og ákveðnari litur en hinn blái sé viðkvæmari, meira „delicate“, eins og það heitir kannski. Um þetta er líka hægt að lesa í Time Magazine frá 1927. Árið 1940 fara síðan markaðsöflin beinlínis að gera út á það að bleikt sé litur stúlkna og blátt litur stráka. Og viti menn, það hélst ekki alveg þannig fram á okkar dag vegna þess að upp úr 1960 og 1970 í frjálslyndis- og kvenfrelsisbyltingunni áttuðu konurnar sig á þessu og eyddu þessu. Það varð til „unisex“ litur fyrir bæði kynin, þau voru bara klædd í eins liti, gjarnan hvíta eða föla liti.

Upp úr 1980 breyttist þetta aftur og bleikt varð aftur stúlknalitur og blátt drengjalitur. Það er býsna merkilegt í sjálfu sér, þó að ég sé kominn aðeins út fyrir efnið, að velta fyrir sér hvernig ríkjandi pólitísk viðhorf og hagsveiflur geta beinlínis haft áhrif á þetta viðhorf okkar.

Það sem máli skiptir í þessu er að við látum ekki líðast að stúlkur og konur þurfi að greiða aukaskatt fyrir aðstæður sem eru þeim áskapaðar. Út af fyrir sig gætum við farið út á miklu víðara svið. Ég hef t.d. aldrei skilið af hverju Alþingi Íslendinga sættir sig við að börn eða unglingar sem greinast með sykursýki 1, sem þau geta ekkert að gert, séu látin borga gjald fyrir þann sjúkdóm. Eitt er nú að fólk þurfi að greiða symbólskt verð eða jafnvel að taka einhverjum afleiðingum af því að hafa lifað óheilbrigðu lífi, eins og við sem erum of þungir og miðaldra þurfum kannski að gera, en annað er þegar menn geta ekkert við því gert hvernig þeir eru skapaðir.

Þetta er eiginlega bara býsna stórt mál og miklu stærra en mér finnst að þátttaka í þingsal bendi til. Við erum líka að tala um kynheilbrigði, við erum að tala um kynheilbrigði kvenna í þessu tilfelli. Við erum að tala um að konur geti stýrt því betur hvenær þær verði ófrískar og hvenær ekki þannig að þeir sem höfðu stórar áhyggjur af samþykkt frumvarps um þungunarrof og töldu jafnvel að inngrip á allra fyrstu viku þungunar væri þvílíkt stórmál hefðu kannski átt að vera hér með okkur í dag og leggjast á árar við að berjast fyrir þessu máli. Hér er auðvitað um það að ræða að ásamt upplýsingum og góðu aðgengi er verðlagning á þessum vörum örugglega mjög virk leið til að draga úr þeim tilfellum þar sem kona þarf eða velur að fara í þungunarrof.

Þess vegna eiga þessar vörur auðvitað ekki bara að lækka aðeins, þær eiga að vera aðgengilegar. Ég er hræddur um að einhverjir þingmenn myndu hrökkva við ef það væri komin rauf við hliðina á klósettinu niðri og maður þyrfti að setja tíkall í hana ef maður ætlaði nota klósettpappír. Það er almennt álitin vara sem er frí á almenningssalernum og ég hefði haldið að tíðavörur væru jafnvel af þeim toga að í fyllingu tímans ættu þær líka að vera öllum konum aðgengilegar og fríar, a.m.k. á vinnustöðum, í skólum og á öðrum stöðum. Það getur verið stórmál, það þekki ég sem eiginmaður, og það getur þurft að gera breytingar á bíltúrnum eða gönguferðinni niður í bæ ef allt í einu kemur í ljós að þessar vörur hafa gleymst.

Þetta held ég að sé miklu meira mál en við karlmenn almennt skiljum. Við þykjumst skilja það og viljum setja okkur inn í þær aðstæður en ég er hræddur um að við myndum hrökkva allhressilega við ef við áttuðum okkur á því hvaða raunverulegu afleiðingar þetta hefur fyrir daglegt líf kvenna. Ekki síst þess vegna fagna ég því að karlar taki þátt í þessari umræðu. Ef við meinum eitthvað með því að við viljum ná jafnrétti kynjanna berum við líka ábyrgð á því að svona óréttlæti sé ekki til staðar.

Í greinargerð með frumvarpinu er talað um svokallaða túrfátækt. Ég nefndi það áðan hvernig sárasta birtingarmynd túrfátæktar er, eins og hjá þessum litlu stúlkum í Afríku sem þora ekki í skólann vegna fordóma og hafa beinlínis ekki efni á því að kaupa sér þessar sjálfsögðu vörur. En eins og samfélagið okkar er á Íslandi eru því miður örugglega líka til dæmi um túrfátækt hér, þ.e. við höfum ekki, þrátt fyrir að vera tíunda eða ellefta ríkasta samfélag heims, náð að byggja upp þannig sátt um lífskjör fólks að allir hafi efni á að snara upp úr veskinu 1.200-kalli eða 1.500-kalli með reglulegu millibili til að kaupa sér vörur sem auðvitað ættu að vera sjálfsagðar og eru það.

Ég vona að að lokinni þessari vönduðu, tiltölulega löngu yfirferð í dag verði málið samþykkt. Þrátt fyrir að hér sé einungis stjórnarandstaðan sem berst fyrir þessu máli og brennur fyrir því í þingsal ætla ég að um það sé tiltölulega góð sátt meðal allra þeirra fjölmörgu karla og ekki síður kvenna í stjórnarflokkunum.

Að endingu hlýt ég að þakka hv. þm. Þórhildi Sunnu Ævarsdóttur aftur fyrir að leggja fram þetta brýna mál og ég verð bara að segja í lokin að ég held að ef eitthvað er hefði það átt að fá lengri umræðutíma en þriðji orkupakkinn.