149. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2019.

virðisaukaskattur.

52. mál
[17:15]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka nafna mínum, hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni, fyrir góða ræðu. Ég vil fara í andsvör við hann um það sem hann benti á að hann væri ekki sammála mér um, sem ég held að hafi verið hið besta mál, hvað varðar þungunarrof. Hann talaði um sjálfsákvörðunarrétt kvenna. Mín hugsun var sú að það hlýtur að hafa gífurleg áhrif á líkama kvenna að taka ákvörðun um að fara í þungunarrof. Það eina sem ég var að benda á var að það er einmitt síst það sem ég myndi vilja að þær þyrftu að taka ákvörðun um. Ég get ekki ímyndað mér hvers lags ákvörðun það er sem þar er tekin, að standa í þessu.

Við vitum að ákveðnir einstaklingar í þessu þjóðfélagi glíma við fíkn og fíknin tekur allt. Ekki eru til fjármunir í neitt annað, fíknin er í fyrirrúmi. Ég er bara að hugsa um að þeir einstaklingar gætu farið á heilsugæslustöð og fengið fríar langtímagetnaðarvarnir til að fyrirbyggja þá skelfilegu stöðu að þurfa að fara í þungunarrof.

Ég hugsa þetta bara á þann góða hátt að við uppfræðum æskuna, að við veitum henni frían aðgang að getnaðarvörnum. Ég veit ekki hvort það virkar en ég tel að það myndi virka sem mótvægi gegn því að 1.000 fóstureyðingar séu framkvæmdar á ári, þrjár til fjórar á dag.