149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlanda.

684. mál
[11:42]
Horfa

Silja Dögg Gunnarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hingað upp sem formaður Íslandsdeildar Norðurlandaráðs en ætla ekki að hafa mörg orð um þingsályktunartillöguna eða nefndarálitið að þessu sinni. Hvort tveggja er mjög gott. Ég þakka stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fyrir hennar góða starf og vandaða yfirferð og ég er sammála niðurstöðu hennar. Að sjálfsögðu á að skýra hlutina út nákvæmlega. Við erum náttúrlega með þessa finnsku fyrirmynd. Til staðar hefur verið í nokkur ár finnsk ráðgjafarnefnd sem hefur með þessi mál að gera, að vinna að afnámi stjórnsýsluhindrana. Þangað getum við leitað og það er skýrt markmið allra ráðherra hér, og ég geri ráð fyrir þingmanna einnig, að ná þessum markmiðum, þ.e. afnámi stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för einstaklinga og fyrirtækja innan Norðurlanda.

Eins og fram kemur í nefndaráliti með frávísunartillögu, og framsögumaður málsins nefndi áðan, er þó nokkuð mikið samstarf á þessu sviði milli ráðuneyta á Norðurlöndum. Menn leggja sig fram við að samræma reglur svo ekki verði misræmi í löggjöf. Og að auki er starfandi á Íslandi ráðgjafarnefnd um opinberar eftirlitsreglur sem forsætisráðherra skipaði. Það er því sjálfsagt að skýra vel þessa ramma þannig að við náum markmiðum okkar.

Mig langar til að undirstrika og koma inn á umsögn Öryrkjabandalags Íslands. Nefndinni bárust tvær umsagnir, annars vegar frá Þjóðskrá Íslands sem var meðmælt málinu og hins vegar Öryrkjabandalagi Íslands. Þar segir, með leyfi forseta:

„ÖBÍ styður og leggur áherslu á að komið verði á fót ráðgjafarnefnd um afnám stjórnsýsluhindrana til að greiða fyrir frjálsri för innan Norðurlandanna. ÖBÍ hefur komið málum er varða fatlað fólk og öryrkja á framfæri til stjórnsýsluhindranaráðsins sem starfar á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar. Mikilvægt er að fylgja slíkum málum vel eftir. Enn fremur er lögð áhersla á að tryggja frjálsa för allra, en fatlað fólk þarf oftar að leita margs konar stuðnings hjá hinu opinbera og er því líklegra en aðrir til að verða fyrir stjórnsýsluhindrunum.

Með því að koma á fót ráðgjafarnefnd á Íslandi bindum við vonir við að settur verði aukinn kraftur í þá vinnu.

Að lokum er áréttað mikilvægi þess að heildarhagsmunasamtök fatlaðs fólks fái aðkomu að ráðgjafarnefndinni og að í nefndinni sé fulltrúi fatlaðs fólks.“

Ég tek undir umsögn Öryrkjabandalagsins. Ég tel að tillaga þeirra sé mjög góð og þörf til að nefndum markmiðum verði náð á einhverju stigi málsins, vonandi sem fyrst.

Tillaga nefndarinnar er að vísa málinu til forsætisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlandanna. Ég tek undir það og þakka nefndinni enn og aftur fyrir mjög góða og vandaða vinnu.