149. löggjafarþing — 119. fundur,  7. júní 2019.

ríkisendurskoðandi og endurskoðun ríkisreikninga.

803. mál
[11:46]
Horfa

Frsm. samgn. (Helga Vala Helgadóttir) (Sf):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu vegna breytinga á lögum um ríkisendurskoðanda og endurskoðun ríkisreikninga. Um er að ræða nefndarálit frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sem hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund nokkurn hóp fólks, auk þess sem umsagnir bárust nefndinni.

Með frumvarpinu er í fyrsta lagi lagt til að verkefni ríkisendurskoðanda við tekjueftirlit verði betur skilgreind. Í öðru lagi verði skerpt á ákvæðum um upplýsingaskyldu opinberra aðila gagnvart ríkisendurskoðanda og í þriðja lagi að um skjalavörslu embættisins fari með sama hætti og hjá Alþingi og umboðsmanni Alþingis.

Á fundum nefndarinnar var rætt um það markmið frumvarpsins að skilgreina betur verkefni ríkisendurskoðanda við tekjueftirlit en frumvarpið felur í sér þá áherslubreytingu í starfsemi Ríkisendurskoðunar að sérstök starfseining sinni eftirliti með því að tekjur ríkisins skili sér í samræmi við áætlunargerð ríkisins. Lagt er til að hlutverk þessarar einingar verði skýrt líkt og gert er með fjárhagsendurskoðun og stjórnsýsluendurskoðun ríkisendurskoðanda en það er m.a. að kanna ýmis tekjuöflunarkerfi ríkisins. Nefndin tekur undir sjónarmið sem komu fram um að verkefnið er stór þáttur í því að Alþingi geti sinnt fjárstjórnarhlutverki sínu sem hefur með setningu laga um opinber fjármál aukið áherslu á eftirlitsþátt ríkisfjármálanna. Ríkisendurskoðandi sem er trúnaðarmaður Alþingis og ábyrgur gagnvart því við endurskoðun og eftirlit með rekstri og fjármálum ríkisins gegnir lykilhlutverki við starfrækslu þess eftirlits sem Alþingi er falið samkvæmt stjórnarskrá.

Nefndin fjallaði sérstaklega um ákvæði 4. gr. frumvarpsins þar sem lagður er til aukinn aðgangur ríkisendurskoðanda að gögnum og upplýsingakerfum hjá opinberum aðilum, svo sem um búsetu, skráningu fasteigna, skipa, loftfara, ákvörðun og innheimtu skatta og gjalda. Slíkir aðilar, en þar er um að ræða innheimtumenn ríkissjóðs, Þjóðskrá Íslands, Samgöngustofu o.fl., skulu veita ríkisendurskoðanda rafrænan aðgang að rauntímaupplýsingum úr kerfum sínum sem hann þarfnast vegna starfs síns, endurgjaldslaust.

Um þetta var töluvert rætt vegna þess að það komu fram ábendingar um að verið væri að leggja ríkisendurskoðanda of rúman aðgang að persónuupplýsingum með vísan til sjónarmiða um friðhelgi einkalífs og þagnarskyldu stjórnvalda og var fjölmörgum spurningum velt upp um þetta og hvernig þeim málum væri háttað hjá nágrannalöndum okkar, t.d. í Noregi og Danmörku.

Markmiðið með frumvarpinu er m.a. að tekjur ríkisins skili sér í samræmi við áætlunargerð en aðgangur ríkisendurskoðanda að gögnum hjá opinberum aðilum og upplýsingakerfum um fjárhagsmálefni ríkisins er ekki nægilega skýr í lögunum til að hann geti sinnt því mikilvæga hlutverki sínu að hafa eftirlit með álagningu með innheimtu o.s.frv. Markmiðið er að gera ríkisendurskoðanda kleift að gera úttektir, annars vegar á tekjum ríkisins og hins vegar á fjárhagskerfi stofnana, og hann þarf því nauðsynlega að hafa aðgang að öllum fjárhagsupplýsingum ríkisins til að geta staðreynt að tekjur séu rétt ákvarðaðar og innheimta þeirra í samræmi við gildandi lög.

Þannig er hvorki ætlunin að framkvæma sérstakrar keyrslur inni í kerfum ríkisskattstjóra né endurreikna álagningu opinberra gjalda en til að unnt sé að gera þessa úttekt á útreikningi og álagningu, m.a. til að tryggja rétta virkni kerfanna, þarf að liggja fyrir aðgangur að þeim forsendum sem notaðar eru við umræddan útreikning. Þannig er beinn aðgangur að fjárhagskerfi nauðsynlegur svo unnt sé að ganga úr skugga um og tryggja að kerfin virki og vinni eins og til er ætlast, m.a. í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli.

Í slíkri kerfisúttekt eða -skoðun þarf einnig að skoða öryggisþætti kerfanna, m.a. til að ganga úr skugga um að ekki sé hægt að misnota þau í sviksamlegum tilgangi. Ekki er unnt að sannreyna áreiðanleika kerfanna öðruvísi.

Nefndin tekur undir þau sjónarmið sem komu fram á fundum nefndarinnar og minnir á að ríkisendurskoðandi og starfsmenn hans eru bundnir trúnaði lögum samkvæmt og fái þeir upplýsingar sem bundnar eru trúnaði frá öðrum stjórnvöldum færist trúnaðarskyldan yfir til þeirra.

Nefndin telur að markmiðið með frumvarpinu sé skýrt og að engar vinnslur séu hugsaðar öðruvísi en að þær séu framkvæmdar af starfsmönnum skattyfirvalda og engin gögn yrðu flutt frá skattyfirvöldum til ríkisendurskoðanda. Nefndin minnir einnig á að valdheimildir ríkisendurskoðanda lúta ekki eingöngu að því að hafa eftirlit með fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja, heldur einnig að hafa eftirlit með tekjum ríkisins og að fjárheimildir og hvers konar verðmæti séu nýtt og þeim ráðstafað á hagkvæman og réttmætan hátt. Nefndin leggur í því sambandi áherslu á að ríkisendurskoðandi, eins og önnur stjórnvöld, þarf ætíð að gæta meðalhófs við beitingu þeirra heimilda sem hann hefur.

Nefndin telur þó eftir allt þetta rétt að koma til móts við þau sjónarmið sem komu fram fyrir nefndinni og leggur því til að heimild ríkisendurskoðanda samkvæmt a-lið 4. gr. frumvarpsins verði þrengri og að orðalagið verði að ríkisendurskoðandi hafi aðgang að þeim upplýsingum sem geymdar eru í upplýsingakerfum opinberra aðila sem nauðsynlegar teljist svo hann geti haft eftirlit með og endurskoðað eignir og fjárreiður ríkisins hverju sinni.

Nefndin fjallaði sérstaklega um ábendingar varðandi sjónarmið um persónuvernd og friðhelgi einkalífs með vísan til þess að eðlilegt sé að allar uppflettingar ríkisendurskoðanda í kerfum skattyfirvalda verði sérstaklega skráðar og síðast en ekki síst að hlutaðeigandi aðilum verði tilkynnt um uppflettinguna. Leggur nefndin því til breytingar á frumvarpinu í þá veru að ríkisendurskoðandi haldi skrá yfir öll skattframtöl einstaklinga og lögaðila sem farið er inn á í því skyni að sannreyna réttar tekjur ríkisins og er sett skylda á ríkisendurskoðanda að tilkynna viðkomandi um slíka uppflettingu. Telur nefndin þetta gríðarlega mikilvægt og eðlilegt að um sambærilegar uppflettingar annarra stofnana, svo sem Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar, Fæðingarorlofssjóðs og ekki síst Innheimtustofnunar sveitarfélaga, gildi sömu reglur. Mun nefndin reyna að vinna í því mögulega á næsta þingi.

Aðeins var fjallað um gagnavörslu. Svo virðist vera sem einhver mistök hafi verið gerð hér á árum áður. Í frumvarpinu er lagt til að ríkisendurskoðandi verði undanþeginn gildissviði laga um opinber skjalasöfn og þar með skilaskyldu á gögnum til Þjóðskjalasafns Íslands. Það voru sett lög árið 1987 um Ríkisendurskoðun og þar virðist sem eitthvað hafi farið á milli mála hvernig þetta ætti að vera þannig að nefndin leggur til breytingu á frumvarpinu í þá veru að við bætist ný grein um breytingar á lögum um opinber skjalasöfn þar sem tiltekið verði sérstaklega að ríkisendurskoðandi verði, líkt og Alþingi og umboðsmaður Alþingis, undanþeginn gildissviði laganna um opinber skjalasöfn.

Að öðru leyti leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hafa verið tilgreindar. Undir nefndarálitið rita allir meðlimir stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, hv. þingmenn Helga Vala Helgadóttir, Líneik Anna Sævarsdóttir, Jón Þór Ólafsson, Brynjar Níelsson, Jón Steindór Valdimarsson, Kolbeinn Óttarsson Proppé, Óli Björn Kárason, Þorsteinn Sæmundsson og Þórarinn Ingi Pétursson.