149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

grænir skattar og aðgerðir í umhverfismálum.

[10:40]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Hvatarnir eiga að leiða til þess að í framtíðinni dragi úr urðun og gert er ráð fyrir að það komi smátt og smátt fram. Það gerist sennilega ekki einn, tveir og þrír heldur mun væntanlega taka stökk þegar lengra er á liðið. Þetta eru gríðarlega mikilvægar stjórnvaldsaðgerðir til að reyna að ná niður losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég veit að hv. þingmaður mun án efa styðja það því að þetta eru skynsamlegar aðgerðir sem mjög mikilvægt er að ráðast í. Gjöldin munu falla á þá sem senda sorp til urðunar. Það eru bæði fyrirtæki og almenningur. En það er mjög mikilvægt að reyna að útfæra þetta með þeim hætti að gjöldin falli ekki á þá sem eru duglegir að flokka og aðgreina sitt sorp — að þau falli ekki á þau fyrirtæki og þá einstaklinga. Það er útfærsluatriði.

Það er að sjálfsögðu sjónarmið út af fyrir sig að þessu ætti að fylgja innspýting í umhverfismálin. En við lifum í heimi þar sem lög um markaðar tekjur gilda og við sjáum mikla aukningu útgjalda til umhverfismála á næstu árum. Þessar skattatillögur eru fyrst og fremst til að hvetja til umhverfisvænni lifnaðarhátta.