149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[20:01]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um loftslagsmál með breytingu á þeim lögum, þar sem ríkisstjórnin hyggst fara í aðgerðir gegn þessum vanda. Undanfarnar vikur og mánuði hafa skólabörn mætt hér niður á Austurvöll og minnt okkur á loftslagsmál jarðarinnar og bent okkur á hvernig jörðin okkar stynur undan umgengni mannkynsins. Við höldum áfram að njóta lífsins, eins og það er kallað, en það er samheiti yfir þá háttsemi að neyta og sóa öllu sem hönd á festir með tilheyrandi umhverfisspjöllum sem eru svo margháttuð að ekki væri nokkur vegur að fara yfir það í stuttri ræðu. Þessi umgengni við móður jörð er dæmalaus í sögu jarðarinnar og við verðum að láta hendur standa fram úr ermum til að snúa þróuninni við. Við eigum bara eina jörð. Eina byggilega jörð. Okkar er ábyrgðin.

Aðgerðir stjórnvalda um allan heim virðast máttlitlar enda snerta allar raunverulegar breytingar til að taka á vandanum sjálfa ímynd okkar um lífsgæði og lífshamingju. Á meðan svo er þarf ekki bara aðgerðir heldur fyrst og fremst víðtæka viðhorfsbreytingu um allan heim. Hér þarf að lyfta grettistökum, ekki bara við Íslendingar heldur allt mannkynið.

Ég fagna að sjálfsögðu þeim aðgerðum sem íslensk stjórnvöld hyggjast grípa til í þessum málum. Rafbílavæðing á einkabifreiðaflota landsmanna á 10–15 árum er þó einungis hænufet miðað við heildarlosun hér á landi. Þetta er svipað eins og að sóðinn í hverfinu — en í flestum hverfum er að finna einhvern sóða sem fyllir lóðina sína af bílhræjum og ýmiss konar drasli og varla hægt að komast inn í húsið fyrir rusli og drasli — fáist til að taka til í efri skápunum.

Súrnun sjávar er nærtækt vandamál sem við eigum að láta okkur varða, sérstaklega við Íslendingar. Hlýnun sjávar verður til þess að fiskstofnar færa sig um set þótt nýir komi væntanlega í staðinn. Þessi síðastnefndu atriði snúa beint að lífæð okkar Íslendinga sem er sjávarútvegurinn og okkur ber skylda til að leitast við að beita áhrifum okkar svo til gagnaðgerða sé gripið sem allra fyrst. Aðgerða er þörf og hér eigum við Íslendingar að skipa okkur í fremstu röð. Ég þakka skólabörnum landsins fyrir að halda okkur við efnið.

Herra forseti. Í raun og veru höfum við á hinu háa Alþingi ekki rætt loftslagsmál neitt afskaplega mikið. Umræðan hefur verið yfirborðskennd og helst fólgin í því að setja af stað nefndir, starfshópa og ráð eða setja á stofn stofur eða stofnanir. Þegar á að ræða raunverulegar aðgerðir er helsta ráðið að leggja á skatta. Þeir eru kallaðir grænir skattar, koma eins og himnasending fyrir vinstri flokkana sem, eins og kunnugt er, virðist dreyma aukna skattheimtu á hverri nóttu og hafa hugmyndaflug sem virðist óendanlegt í þessum efnum. Og þeim tekst að draga hina örgustu meðalhægrisinna í Sjálfstæðisflokki Íslands með sér á vagninn.

Herra forseti. Þarna á ég auðvitað við kolefnisgjaldið sem lagt er á eldsneyti án þess að nokkur rannsókn liggi að baki því hvort það hafi nokkurn eða einhvern árangur í för með sér á sviði loftslagsmála eins og yfirlýsta markmiðið þó er. Þannig er því háttað t.d. með kolefnisgjald á fiskveiðar og útgerðir. Þar er gjaldið lagt á algerlega óháð þeirri staðreynd að í þeirri atvinnugrein hefur tekist með rafvæðingu fiskimjölsverksmiðja, endurnýjun fiskiskipaflotans og almennri hagræðingu í greininni sem allir þekkja, fjárfestingum í nýrri tækni og nýjum skipum, að minnka kolefnisfótspor greinarinnar gífurlega á síðustu árum. Atvinnugreinin hefur þannig minnkað útblástur gróðurhúsalofttegunda um 54% frá 1990 sem er langt umfram Parísarsamkomulagið. Þannig hefur hún uppfyllt Parísarsamkomulagið og gott betur en samt er lagt á þessa atvinnugrein kolefnisgjald. Í öllum samkeppnislöndum nýtur þessi atvinnugrein sérstakrar undanþágu á slíkum sköttum sem kolefnisgjaldið er en er sköttuð hér með gjöldum sem ekki liggur fyrir hvort skili raunverulegum, yfirlýstum tilgangi þeirra. Herra forseti. Engar rannsóknir liggja að baki því hvort þessi skattur skili raunverulegum, umhverfislegum árangri heldur virðist þetta bara vera enn einn skatturinn.

Herra forseti. Ég hef talað fyrir stóraukningu í skógrækt alveg síðan ég kom hingað fyrst inn á þing. Gróðursetning nýrra skóga hefur minnkað umtalsvert síðustu tíu árin, úr því að hafa verið um 10 milljón plöntur á ári niður í 3 milljónir nú undanfarin ár. Ríkisstjórnin boðar stóraukningu á þessu en í fjárlagafrumvarpinu sjást efndir einungis að litlu leyti. Ef á að auka skógrækt upp í það sem hún var fyrir hrun þá þarf að gefa mikið betur í. Það þarf að koma af stað ræktun, plöntun og koma af stað aðilum sem vilja leggja út fræ nú þegar ef á að takast að hefja nýja gróðursetningu innan fimm ára. Það tekur nokkur ár að byggja upp stöðvar, tekur nokkur ár að byggja upp plöntur í svo miklu magni. Ég hef talað fyrir því að við ættum að gróðursetja a.m.k. 12 milljón plöntur á ári hverju. Það er raunverulegt framlag til loftslagsmála vegna þess að skógur, sérstaklega trjátegundir eins og ösp, bindur gífurlega mikið magn af kolefni á skömmum tíma. Hér er nægt land, skóglaust land að mestu, þannig að tækifærið liggur beint fyrir framan okkur. Ég kalla eftir aðgerðum í þessa veru, alvöruaðgerðum þannig að það sé hægt að fara út í þetta.

Herra forseti. Það sem meira er, skógrækt er ekki bara binding á kolefni, skógrækt er framtíðaratvinna. Þetta er atvinna sem hverfur ekki á einni nóttu eins og margar aðrar atvinnugreinar hafa gert, sérstaklega í byggðamálum þar sem fyrri ríkisstjórnir hafa stutt við einstakar atvinnugreinar eins og fiskeldi og loðdýraeldi og eitt og annað í gegnum árin og allir þekkja þá sögu. Það hafa verið veittir gífurlegir fjármunir í þetta sem hefur svo horfið á skömmum tíma og orðið eins og ryðguð minnismerki um allar sveitir. Skógurinn stendur, heldur áfram að vera og gefur atvinnumöguleika til langrar framtíðar fyrir þá íbúa sem þar búa eftir 20, 50 eða 100 ár. Skógræktin veitir atvinnu og arð til langs tíma um allt land.

Ég hef ekki bara talað fyrir skógrækt heldur einnig fyrir betri losun úrgangs, þ.e. sorps. Ég lagði fram fyrir nokkrum vikum síðan tillögu til þingsályktunar um sorpbrennslur. Fyrirmyndin er frá Danmörku og reyndar fleiri löndum. Lönd sem eru framarlega í þessum málum hafa tekið upp á því að hætta að urða sorp eins og flestir hafa gert hingað til heldur brenna því á eins umhverfisvænan hátt og frekast er unnt með svokölluðum hátæknisorpbrennslustöðvum. Þar er sorpið bæði endurunnið miklu betur en áður og einnig er brunanum stýrt mun betur. Það er hærra hitastig við bruna. Gasið sem verður til við brunann er einnig brennt á síðara stigi þannig að útblástur er síaður, margsíaður, og er næstum mengunarlaus. Hér á Íslandi urðum við u.þ.b. 140.000 tonn af heimilissorpi á ári hverju, 140.000 tonn, mestmegnis hér upp í Álfsnesi en líka víðar um landið á nokkrum stöðum. Þarna er losað mikið magn af gróðurhúsalofttegundum þó að við séum á þessum stöðvum að reyna af veikum mætti að vinna metangas, sem er allra góðra gjalda vert. Gas sem myndast þarna, ef það fer upp í andrúmsloftið, mengar 25 sinnum meira en ef því er brennt.

Ég tel, herra forseti, að þetta sé tækifæri. Það kostar mikinn pening að setja upp svona stöð en við eigum ekki að horfa í það þegar um svo mikilvægt málefni er að ræða sem er að minnka útblástur gróðurhúsalofttegunda og ekki síður minnka notkun á landi. Urðun sorps tekur mikið af landi eins og við þekkjum í Reykjavík, Gufunesi. Hvað var þetta kallað í Gufunesi, garðar? Þar voru sorphaugar, sorpgarðar og líklega verður ekki byggt á því landi alveg á næstunni. Í Álfsnesi fer mikið land undir þetta og víðar um land. Þetta hefur áhrif á umhverfið, bæði sóðaskapur og mengun og útblástur upp úr þessu og síðast en ekki síst valda þessir urðunarstaðir mikilli og viðvarandi grunnvatnsmengun. Alls kyns mengandi efni síga úr þessum haugum niður í jarðveginn og menga grunnvatn á stóru svæði í námunda við sig. Og þegar staðurinn er nálægt sjó lekur þetta auðvitað líka út í hafið. Allir vita hvers lags efni er að finna þarna, alls konar afgang af lyfjum, eiturefnum og hinum og þessum mjög svo mengandi efnum sem fólk varpar á sorphaugana þó að endurvinnsla í dag sé orðið mun og miklu betri en var bara fyrir nokkrum árum síðan.

Þessi þingsályktunartillaga kom seint fram en ég hyggst leggja hana fram aftur næsta haust þar sem um svo gott málefni er að ræða. Ef við myndum reisa sorpbrennslustöð eins og er í Kaupmannahöfn, sem annar 400.000 tonnum á ári og er nánast í miðborg Kaupmannahafnar, svo mengunarlítil er hún, þá myndi hún anna allri sorpbrennslu fyrir Ísland. Jafnvel þótt aukning yrði, eins og verið hefur undanfarin ár, gífurleg aukning á sorpi, jafnvel þótt sorpið myndi aukast áfram, þá myndi slík stöð duga um mörg ókomin ár.

Annað sem ég myndi vilja nefna í þessu sambandi er staðsetningin. Auðvitað er betra að hafa hana þar sem mesta sorpið er til að koma í veg fyrir akstur um allar koppagrundir með sorp. Það er líka annað sjónarmið sem ég vil nefna. Það er ekki fjarri lagi að slík stöð, kannski minni stöð, væri best staðsett á köldu svæði, til að mynda á Vestfjörðum þar sem vantar raforku. Bara 80.000 tonna stöð sem tæki þá einn þriðja af sorpi hér á landi myndi anna raforkuþörfinni að langmestu leyti á Vestfjörðum. Sem innspýting í kerfið á svæðinu myndi hún líka auka raforkuöryggi. Vissulega myndi þetta útheimta að hluta af þessum sorpi yrði að aka töluvert langan spöl en við gætum hugsað okkur að ein slík stöð væri á Vestfjörðum og svo kannski 200.000 tonna stöð nálægt höfuðborgarsvæðinu sem myndi þá anna langmestu af þessu. Í dag er einungis ein stöð á Íslandi sem brennir sorpi. Það er Kalka í Reykjanesbæ. Sú stöð brennir ekki nema held ég tæplega 12.000 tonnum sem er rétt um 5% af öllu sorpi. En á móti kemur, herra forseti, er þar brennt öllu sjúkrahússorpi á landinu og mestöllu spilliefnasorpi. Við náum að farga því þarna en ella þyrftum við að flytja það sorp til útlanda með öllum þeim útblæstri sem slíkur flutningur myndi útheimta.

Það gengur ekki lengur, herra forseti, að við Íslendingar sem viljum líta á okkur sem umhverfisvæna þjóð, séum að grafa tugþúsundir tonna af sorpi í einhverjar landfyllingar eða niður í jarðveg nálægt höfuðborginni. Vatn er hugsanlega að verða ein dýrmætasta auðlind mannkynsins og við í þessu landi þar sem eru óþrjótandi vatnsauðlindir getum ekki verið þekkt fyrir að grafa sorp um allar koppagrundir. Við getum það ekki. Við verðum að koma betur fram. Ef við ætlum að vera sú fyrirmynd sem við viljum vera þá þurfum við að snúa af þessari braut.

Þegar ég lagði fram þessa tillögu til þingsályktunar þá fékk ég ansi marga þingmenn til að vera með mér á henni og ég vonast til að í haust þegar ég legg hana fram aftur þá verði þeir enn þá fleiri vegna þess að þetta er eitt besta málið í umhverfismálum sem við getum talað um. Það er minni útblástur gróðurhúsalofttegunda þrátt fyrir brennsluna heldur en þegar sorp er urðað. Það er minni útblástur af sorpbrennslunni. Þarna er einungis um hagnað í umhverfismálum að ræða þó að vissulega kosti svona stöðvar töluverða fjármuni.

Ég vil einnig benda á það, herra forseti, að sveitarfélög í dag kosta miklu við að aka sorpi á milli landshluta til urðunar. Slík sorpbrennsla myndi einnig valda því að það yrði meiri þrýstingur á það að allur úrgangur, bæði heimilisúrgangur og annarrar úrgangur, yrði flokkaður mun betur en í dag vegna þess einfaldlega að í svona brennslu þarf að huga að því hvað er brennt í hvert og eitt skipti. Þetta myndi því einnig auka endurvinnslu sem hefur auðvitað stórbatnað á undanförnum árum. Ég held að við eigum margt eftir ólært þar og þurfum að standa okkur enn þá betur í endurvinnslu og flokkun á úrgangi. Þetta virðist oft vera svona til málamynda. Menn eru að flokka ruslið og meira að segja hafa heyrst sögur af því að fólk er að flokka heimilisúrgang og skila þessu í nokkrum pörtum og síðan lendir þetta allt saman á sama urðunarstaðnum.

Herra forseti. Við þurfum að standa okkur betur í þessum málum og lýk ég hér með máli mínu.