149. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2019.

loftslagsmál.

758. mál
[21:06]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Mann grunar að flugfélög hafi fyrst og fremst glímt við það undanfarin ár að tekjur á hvern farþega hafa verið of litlar. Ég held að flugfélög þurfi að vinna upp þá stöðu. Ég vona að flugfargjöld verði sem lægst áfram, en ég er hræddur um að flugfélög eigi eftir að vinna upp þessa rekstrarlegu stöðu. Þá held ég að ekki sé æskilegt að búa til viðbótarhækkun í formi skattlagningar á það flug sem um ræðir. Það er oft sagt í gríni að þeir sem ferðast mest séu þeir sem kvarta mest yfir kolefnisspori annarra, þeir mæti helst ekki nema á einkaþotum á þessa fínu loftslagsfundi sína. Ég held að ég muni ekki leggja neitt í þá veruna til í fyrirsjáanlegri framtíð nema eitthvað stórkostlegt breytist, að fara að hindra fólk í ferðalögum með sérstakri skattheimtu sem miðar að slíku.

Hv. þingmaður spurði hvort gögn hafi verið lögð fram í umhverfis- og samgöngunefnd sem ramma inn árangur sem næst af því að moka ofan í skurði. Ég sé að hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir er mætt í salinn og ég treysti á að hún hristi hausinn eða kinki kolli, ef þetta er misminni hjá mér, en ég held að fyrir nefndinni hafi verið talað á þeim nótum að menn telji sig hafa einhverja tilfinningu fyrir þessu en ekki sé fastur grunnur undir þær tölur. Er það ekki nokkuð rétt, hv. þm. Líneik Anna Sævarsdóttir? Jú, ég treysti mér til að svara á þeim nótum að betur grundaðar upplýsingar vanti.