149. löggjafarþing — 121. fundur,  12. júní 2019.

innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

637. mál
[11:27]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni greiðum atkvæði gegn þessu frumvarpi og við tökum undir umsögn Neytendasamtakanna þar sem segir, með leyfi forseta:

„Neytendasamtökin gjalda varhuga við þeim breytingum sem lagðar eru fram í frumvarpinu á lækkun iðgjalds viðskiptabanka og sparisjóða til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta (TIF) þar sem ekki hefur farið fram nákvæmt mat á hæfilegri stærð TIF, eins og fram kemur í frumvarpinu.

Þá telja samtökin affarasælla ef efnisþáttur frumvarps þessa yrði tekinn fyrir samhliða innleiðingu DGS III og BRRD-tilskipana Evrópusambandsins þar sem þær munu hafa í för með sér gagngerar breytingar á regluverki innstæðutrygginga. Samtökin telja því í ljósi efnahagshrunsins 2008 varhugavert að lækka iðgjöld aðildarfélaga þegar ekki liggur fyrir festa í því regluverki sem ætlunin er að koma til framkvæmda.“

Þetta er gagnrýni sem við í Samfylkingunni tökum mark á og við munum ekki greiða frumvarpinu atkvæði okkar.