149. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2019.

taka gjalds vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóður.

710. mál
[15:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg):

Forseti. Það má með réttu segja að þetta mál sé hin hliðin á sama peningi og það mál sem við vorum að gera hlé á umræðu um, þ.e. heildarlögum um fiskeldið. Hér er horft á gjaldtökuhliðina. Ég fór í framsögu minni varðandi hitt málið yfir þær hugmyndir sem í gangi eru um gjaldið í umhverfissjóð sjókvíaeldis. Hér er málið sem snýr að heildargjaldtökunni. Ýmis sjónarmið hafa verið uppi í þeim efnum í gegnum tíðina. Eins og hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra fór yfir í framsögu sinni um málið er hér ekki síst horft til þess hvernig um hnúta er búið í Færeyjum þar sem gjaldið leggst á framleitt magn. Ég tel einn helsta kostinn við þá leið vera þann að gjaldið leggst þá á framleitt magn sama hvenær leyfi fyrir því voru gefin út. Við þekkjum til í öðrum löndum að þar er gjaldið kannski á útgáfu leyfanna en þar sem ekki er hægt að gera slíkt afturvirkt finnst mér þetta að nokkru leyti skynsamleg leið þar sem gjald á framleiðsluna leggst bara á alla.

Hv. atvinnuveganefnd fékk til sín fjölda gesta og kannski er rétt að greina frá því að við unnum þessi mál saman, því að eins og ég sagði í upphafi máls míns er þetta að einhverju leyti hvor sín hliðin á sama peningnum. Stóru línurnar í þessu frumvarpi eru að lagt er til að tekin verði upp gjaldtaka vegna fiskeldis í sjó á og að stofnaður verði fiskeldissjóður. Megintilgangur frumvarpsins er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi í sjókvíum er stundað og styrkja þar með samfélög og stoðir atvinnulífs á umræddum svæðum. Þá er ekki síður tilgangur frumvarpsins að skjóta styrkari stoðum undir þær stofnanir sem sinna eftirliti og rannsóknum í málaflokknum.

Fyrir nefndinni kom fram almenn ánægja um að samþykkt yrði frumvarp um gjaldtöku í fiskeldi. Það var ljóst að koma þyrfti á einhvers konar gjaldtöku. Auðvitað eru ýmis sjónarmið í því og farið yfir m.a. áhrif fiskeldis á byggðaþróun o.s.frv. Og þau sjónarmið komu fram að nauðsynlegt væri að gjaldtöku yrði stillt í hóf til að byrja með til að rekstrarleyfishafar hefðu svigrúm til að þróa starfsemi sína og byggja upp rekstur sinn. Meiri hlutinn tekur undir framangreind sjónarmið og telur að sú gjaldtaka sem lögð er til í frumvarpinu sé í samræmi við þau. Það má kannski rifja upp að gjaldtakan trappast upp á sjö árum samkvæmt frumvarpinu.

Nefndinni var bent á að nauðsynlegt væri að í gjaldtöku fælust hvatar fyrir rekstrarleyfishafa til að stunda umhverfisvænni framleiðslu. Meiri hlutinn tekur undir þetta sjónarmið og leggur því til breytingu á 4. mgr. 2. gr. þess efnis og að gjaldtöku á ófrjóan lax og lax sem alinn er í lokuðum eldisbúnaði verði frestað til ársins 2029. Þar lengjum við það skjól fyrir nokkru gjaldi sem frumvarpið gerði ráð fyrir varðandi eldi á ófrjóum laxi og laxi sem alinn er í lokuðum eldisbúnaði. Þetta er í anda þess sem við höfum farið yfir í fiskeldismálunum sjálfum, að hafa hagræna hvata til þess að fyrirtækin fari í rekstur sem er hvað umhverfisvænstur.

Meðal þeirrar gagnrýni sem fram kom á frumvarpið var að of lítið hlutfall fyrirhugaðs gjalds myndi renna til sveitarfélaganna og var bent á að uppbyggingu fiskeldis fylgdi þörf á uppbyggingu innviða viðkomandi sveitarfélaga. Meiri hlutinn bendir á að fyrirhuguð gjaldtaka er fyrir afnot af hafsvæði sem ekki lýtur beinum eignarrétti enda liggi sjókvíar á hafsvæði sem er utan umráðasvæðis sveitarfélaganna. Sveitarfélögin eru því ekki svipt réttindum og ekki vegið að sjálfstæði þeirra. Meiri hlutinn tekur hins vegar undir þau sjónarmið að tryggja þurfi að þau fái hlutdeild í þeim tekjum sem skapast, enda gerir frumvarpið ráð fyrir því. Meiri hlutinn bendir á að hlutverk fiskeldissjóðs er að styrkja uppbyggingu innviða þar sem fiskeldi er stundað. Með því er ætlunin að styrkja stoðir atvinnulífs sveitarfélaganna og hjálpa til við uppbyggingu samfélagsins.

Meiri hlutinn bendir á að það sé nauðsynlegt að ef fiskeldi eigi að vaxa og byggjast upp sem atvinnugrein að henni sé veitt aðhald. Þess vegna teljum við mikla kosti fólgna í því að hafa sérstakan fiskeldissjóð sem haldi utan um þær tekjur sem skapast. Slíkur sjóður hefði líka betri yfirsýn yfir úthlutun, að hún væri þá í samræmi við atvinnugreinina. Hins vegar leggur meiri hlutinn til þá breytingu að 2. málsliður 5. mgr. 7. gr. falli brott, enda sé ekki rétt að kveða á um fjárheimildir í sérlögum, en leggur þó áherslu á að frá og með árinu 2021 fái sjóðurinn framlag úr ríkissjóði.

Forseti. Hér er verið að leggja á nýtt gjald. Það er verið að fara af stað inn eftir nýrri leið þegar kemur að gjaldi á nýja atvinnugrein. Meiri hlutinn telur mikilvægt að gjaldtaka vegna fiskeldis í sjó sé ávallt byggð á sanngjörnum og málefnalegum grunni þar sem litið er til umhverfisþátta og jafnvægis í tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Á yfirstandandi ári er von á hvítbók um gjaldtöku í fiskeldi í Noregi. Gera má ráð fyrir að þar komi fram gagnlegar upplýsingar og eðlilegt að það fari fram heildarendurskoðun á gjaldtöku hér á landi. Þá telur meiri hlutinn einnig rétt að við þá endurskoðun verði litið til fyrirkomulags gjaldtöku í Færeyjum. Meiri hlutinn leggur áherslu á að við endurskoðunina verði sérstaklega horft til þess að hafa öflugar hagrænar ívilnanir sem hvetji til umhverfisvænni framleiðslu og horft til tekjuskiptingar á milli ríkis og sveitarfélaga, en um leið tryggt að gjaldið standi undir nauðsynlegu eftirliti. Þá þarf að horfa til heildarumfangs allra gjalda sem á greinina eru lagðar, hvaða áhrif þau hafa á uppbyggingu á frumbýlingsárunum og hvenær rétt sé að þau taki gildi að fullu.

Í ljósi alls þess sem hér hefur verið rakið leggur meiri hlutinn til að endurskoðun á fyrirkomulagi gjaldtöku verði lokið 1. janúar 2021. Við leggjum með öðrum orðum til að farið verði í heildarendurskoðun sem byggi á þeim atriðum sem ég las upp og frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem m.a. kveða á um þessa endurskoðun og öðrum sem er að finna í nefndaráliti með breytingartillögu.

Undir þetta rita ásamt þeim sem hér stendur hv. þingmenn Lilja Rafney Magnúsdóttir, Ásmundur Friðriksson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jón Þór Þorvaldsson, Njáll Trausti Friðbertsson og Ólafur Ísleifsson.