149. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2019.

kynrænt sjálfræði.

752. mál
[15:52]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við munum styðja þetta frábæra og mikilvæga og í raun og veru sjálfsagða mál. Við munum vissulega greiða atkvæði með breytingartillögu minni hlutans, enda sá sem hér stendur í honum. Við munum einnig greiða atkvæði með breytingartillögum meiri hlutans, að mestu. Þar er þó lagt til að 15 ára aldurstakmark verði hækkað upp í 18 ára, t.d. um það hvenær einstaklingur getur sjálfur ráðið alfarið skráningu kyns í þjóðskrá. Við erum ekki sannfærð um að sú breyting sé nauðsynleg þótt vissulega geti verið málefnaleg rök þar að baki. Við munum sitja hjá hvað varðar þær breytingar en styðja greinarnar svo breyttar, að því gefnu að þær verði samþykktar sem við gerum auðvitað ráð fyrir að verði.

Sömuleiðis munum við sitja hjá við 7. gr. þar sem fjallað er um takmarkanir á rétti til þess að skipta um skráningu á kyni þar sem það er takmarkað við eitt ár en ég fer betur út í það í atkvæðaskýringum hér á eftir. Það er þess virði að fagna þessu mikilvæga og góða máli og ég vil óska fólki sem það varðar innilega til hamingju með að það verði samþykkt á þessu þingi.