149. löggjafarþing — 127. fundur,  20. júní 2019.

úttekt á fjárhagslegum áhrifum þess fyrir ríkissjóð að afnema skerðingar ellilífeyris almannatrygginga vegna tekna af atvinnu.

993. mál
[01:42]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er í sjálfu sér á ferðinni mikilvægt mál, þ.e. við höfum betri skilning og kannski betri yfirsýn yfir það með hvaða hætti skerðingar í bótakerfunum geta haft áhrif á framfærslu einstaklinga og eftir atvikum útgreiðslu eða afkomu ríkissjóðs. Ég verð þó að segja að mér finnst formið á þessu máli vera gallað. Í reynd er hér verið að fara fram á einhvers konar skýrslu. Þá finnst mér að menn eigi bara að leggja fram skýrslubeiðni. Í öðru lagi er verið að velta upp þeirri spurningu hvort það geti verið að það að hætta skerðingum í bótakerfunum muni ekki kosta neitt. Svarið við því er bara svo augljóst í mínum huga. Að sjálfsögðu mun það kosta viðbótarútgreiðslur úr ríkissjóði að hætta öllum skerðingum, jafnvel þótt ég taki eftir því að hér sé verið að leggja áherslu á að meta heildaráhrifin, aukin umsvif o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég treysti mér ekki til að styðja málið þótt ég telji flutningsmenn málsins hér leggja mikilvægt mál undir.