149. löggjafarþing — 129. fundur,  20. júní 2019.

fjármálaáætlun 2020--2024.

750. mál
[14:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil bregðast við þessari framsögu nefndarálits sem var langur lestur um hvernig hlutirnir ættu að vera og mættu vera betri. Ég vil byrja á að segja að ég fagna allri málefnalegri gagnrýni og uppbyggilegum ábendingum, en mér finnst hv. þingmaður að venju ganga allt of langt í því að lýsa því hvað allt er einhvern veginn í molum hjá okkur.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann um tvennt. Ef við í fyrsta lagi setjum alla þessa vinnu við gerð fjármálastefnu og fjármálaáætlunar í eitthvert samhengi við tilgang laganna og ef hlutirnir eru í jafn miklum molum og hv. þingmaður lýsir hér, hvar birtist það okkur í okkar dagsdaglega lífi, hjá fjölskyldum, heimilum, ríkissjóði, sveitarfélögum og fyrirtækjum? Hvar birtist það í hagkerfinu? Öll þessi vinna er unnin til að okkur takist betur að ná efnahagslegu jafnvægi, að við getum unnið að langtímamarkmiðum okkar, að opinber fjármálastefna sé til þess fallin að styðja við stöðugleika og að áætlunargerð í samfélaginu verði auðveldari. Það er út af fyrir sig hægt að gagnrýna að menn þurfi að taka forsendur til endurskoðunar og gera nýjar áætlanir þegar forsendur breytast. Menn geta sagt: Þið hefðuð ekki átt að byggja á þessum forsendum. Við vissum að það eru aðrar forsendur sem betur hefði mátt leggja til grundvallar og við stæðum ekki hér að endurgera okkar áætlanir ef við hefðum bara byggt á einhverjum öðrum forsendum. En hvar er skaðinn? Hvar er tjónið? Hvar eru háu vextirnir, verðbólgan, atvinnuleysið og skuldirnar? Hvar eru vandræði sveitarfélaganna, heimilanna og fyrirtækjanna?

Við megum ekki gleyma því til hvers við erum að þessu öllu hér. Það er það sem mig langar til að biðja hv. þingmann að lýsa. Ég kem inn á hitt atriðið á eftir.