149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[12:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef hlustað á þeirra málflutning og hef lesið greinargerð þeirra. Ég hef líka fengið tækifæri til að hlusta á aðra fræðimenn sem hafa komið sem eru á öndverðri skoðun og það er auðvitað þannig, eins og hv. þingmaður starfar vonandi eftir sjálfur, að maður vegur svo og metur býsna kalt rök með og á móti. Ég tók mikið mark á þeim orðum Baudenbachers að það gæti leitt til mikillar óvissu, bæði lögfræðilegrar en líka pólitískrar óvissu, ef við færum þá leið.

Hver er hagur Íslands af því að innleiða þennan orkupakka? Þessi staka innleiðing verður aldrei slitin úr samhengi við þann heildarsamning sem við höfum gert og hefur verið okkur til framdráttar síðustu 25 árin. Við þurfum að horfa á þetta sem heild. Sumt gagnast okkur afar vel. Sumt skiptir okkur engu máli. Sumt gætum við kannski innleitt með hundshaus á meðan það er ekki skaðlegt fyrir Ísland. En við getum ekki gert svona stóran samning eins og við séum að velja mola úr konfektkassa í fermingarveislu og plokkað bara út það sem okkur þykir best.

Þetta er ekkert ósvipað því og þegar maður ákveður að byrja að búa með öðrum einstaklingi, stofna fjölskyldu, ráðast í fjárfestingu á heimili og eignast börn. Við getum ekki valið um að deila bara svefnherbergi, mæta í kvöldmatinn og borða og fara á ball með frúnni en hafna því síðan að taka úr vélinni og strauja. Það verður að vera einhvers konar samkomulag um það hvernig fólk deilir ábyrgð og flestir ganga í slíkan hjúskap einmitt til þess að auka fullveldi sitt, auka frelsi, auka möguleika sína á því eiga innihaldsríkt líf og þess vegna erum við með í EES-samningnum.