149. löggjafarþing — 130. fundur,  28. ág. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[14:04]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég dró það fram í vor í einhverjum af ræðunum hjá mér að það er eitt sem allt þetta ferli varðandi orkupakkann hefur dregið fram. Í raun má hrósa öllum ríkisstjórnum sem hafa komið að málinu, stjórnkerfinu, embættismönnum í utanríkisráðuneytinu og í öðrum ráðuneytum sem komu að, það var haldið á málum. Menn voru mjög vel vakandi á öllum stigum, hvort sem það voru vinstri eða hægri stjórnir, í því að halda fram hagsmunum Íslands. Það skiptir okkur miklu máli að sjá að gangverk kerfisins funkeraði. Við fengum undanþágur sem skipta okkur máli. Við héldum þeim fyrirvörum og erum að gera núna sem skipta okkur máli. Það er stóra málið í þessu. Þess vegna var ég að draga fram að þeir sem eru á móti orkupakkanum eins og hann er núna eru á móti einhverju sem ekki stendur þar. Það stendur ekkert um sæstreng þar. Það stendur ekkert um að einhverjir vondir útlendir aðilar eða Evrópusambandið geti þvingað okkur til að virkja eða miðla af raforkunni til annarra landa. Það er ekkert um það.

Þess vegna er ég líka að draga fram að öll þessi umfjöllun, öll þessi nálgun af hálfu Miðflokksins, segir mér að við sem erum talsmenn frelsis, frjálslyndis, jafnréttis og alþjóðasamstarfs þurfum að halda vöku okkar, að það verði ekki síðan næsta mál tekið sem hentar. Ég spyr t.d. um persónuverndartilskipunina, af hverju var ekki sami fyrirvari þar? Það hefði átt að vera miklu meira umhugsunarefni fyrir Miðflokkinn. Af hverju var ekki farið í það? Var kannski erfitt að selja það landanum? Er hægt að tengja miklu meira tilfinningar og fá æsing í fólk ef við tölum um orkuna okkar? Það er enginn hér í þinginu og ég fullyrði að það er enginn þingmaður sem ætlar að gera neitt annað en að standa vörð um fullveldi landsins.

Ég er þeirrar skoðunar með því að taka þátt í samstarfi fullvalda ríkja þá erum við ekki að ógna Íslandi. Við erum miklu frekar að styrkja Ísland. Ógnir sem eru handan við hornið (Forseti hringir.) og Miðflokksmenn sjá svona grimmilegar, er miklu frekar popúlismi, þjóðernispopúlismi og lýðskrum. (Forseti hringir.) Það er ógnin sem við eigum að vera á varðbergi gagnvart.