149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[10:42]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Fátt er lítilli eyþjóð dýrmætara en góð tengsl og samvinna við umheiminn og raunar stendur mannkynið frammi fyrir slíkum verkefnum að það er ekki hægt að leysa þau nema við vinnum miklu þéttar saman. Innleiðingin sem við greiðum hér atkvæði um er hluti af risastórum samningi sem hefur fært okkur Íslendingum mikla gæfu. Fæst í innleiðingunni hefur þó bein áhrif á okkur vegna þess að við erum ekki beintengd evrópskum raforkumarkaði. Vegna umræðunnar er þó rétt að taka fram að við erum ekki að ganga gegn stjórnarskrá. Við erum ekki að gefa eftir vald til að ákveða um sæstreng, hvar, hvenær og hvort verður virkjað. Við skulum hins vegar nýta þessa umræðu sem hvata til að samþykkja nýja stjórnarskrá með skýru ákvæði um að auðlindir landsins séu í eigu þjóðarinnar.

Samfylkingin mun greiða atkvæði með þessari innleiðingu.