149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:54]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Hugsanleg lagning sæstrengs hefði komið til umfjöllunar á Alþingi óháð því máli sem við ræðum. En í þessu máli og því næsta erum við komin að þeim málum sem Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, kallaði lofsverðar blekkingar. Ég er vissulega sammála Þorsteini Pálssyni um að um sé að ræða blekkingar og ráðherrar hafa meira að segja haldið því fram að þessi ákvæði skipti í rauninni engu máli en séu til þess ætluð að láta mönnum líða betur með málið. Það er í rauninni mjög áhugavert að Viðreisn, flokkur Þorsteins Pálssonar, og Samfylkingin skuli hafa náð meiri árangri með stærsta og í rauninni eina stefnumál sitt í stjórnarandstöðu en í ríkisstjórn. En Alþingi getur ekki leyft sér að stunda blekkingar og þess vegna er hvorki hægt að styðja það mál sem við ræðum né það næsta.