149. löggjafarþing — 132. fundur,  2. sept. 2019.

breyting á þingsályktun nr. 26/148, um stefnu stjórnvalda um uppbyggingu flutningskerfis raforku.

791. mál
[11:55]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég er staðfastlega þeirrar skoðunar að það séu kjósendur sjálfir sem eigi að ákveða hvað fari í þjóðaratkvæðagreiðslu og hvað ekki. Ég vísa þá til annars ágætrar breytingartillögu hv. þm. Ingu Sæland um að ákvörðun um lagningu sæstrengs yrði sjálfkrafa sett í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég hef ekkert móti því, ég myndi sennilega skrifa undir slíkan lista sjálfur ef ég væri spurður sem óbreyttur borgari, en ég aðhyllist ferlið sem er í nýrri stjórnarskrá og sem við erum að taka upp sem hluta af stefnu okkar í Pírötum, þ.e. að 10% kjósenda geti farið fram á um þjóðaratkvæðagreiðslu. Náist það hlutfall, sem eru u.þ.b. 25.000 manns, myndi ég leggja sjálfur fram svona breytingartillögu eða styðja hana ef einhver annar væri búinn að því á undan mér eins og nú er tilfellið. Hins vegar hef ég ekki orðið var við að ákall um þjóðaratkvæðagreiðslu komi neins staðar að nema frá stjórnmálamönnum sjálfum. Þess vegna finnst mér ég ekki geta stutt þá annars ágætu breytingartillögu. Ég er hins vegar heldur ekki á móti henni þannig að ég sit hjá en hvet alla sem vilja hafa áhrif á afstöðu Pírata til þjóðaratkvæðagreiðslna að safna undirskriftum, ná inn 10% og við munum leggja fram breytingartillögu þess efnis og við (Forseti hringir.) munum styðja mál sem eru sama efnis.