150. löggjafarþing — 2. fundur,  11. sept. 2019.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:20]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Herra forseti. Góðir landsmenn. Framsókn hefur í gegnum tíðina verið framsækinn samvinnuflokkur, já, sem hefur skýra stefnu um samvinnu sem hann tekur með sér inn í ríkisstjórn og hefur haft með afgerandi hætti áhrif á íslenskt samfélag, fylgt því meira en 100 ár. Saga flokksins er samofin sögu þjóðar. Framsókn hefur leitt í mikilvægum hagsmunamálum þjóðarinnar, ekki síst á sviði atvinnu, heilbrigðis og mennta. Framsókn hefur líka leitt saman ólík öfl til samvinnu fyrir land og þjóð.

Á miðju kjörtímabili er tækifæri til að líta um öxl og velta fyrir sér árangri ríkisstjórnar Framsóknar, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs undir forystu Katrínar Jakobsdóttur. Strax síðasta vetur skilaði þessi einstaka pólitíska samsetning gríðarlegum árangri þegar aðilar á vinnumarkaði skrifuðu undir lífskjarasamninga þar sem aðkoma ríkisstjórnarinnar skipti höfuðmáli til að ná niðurstöðu sem tryggði stöðugleika. Ávinningurinn sést ekki hvað síst á því að vextir hafa jafnt og þétt lækkað sem er eitt helsta hagsmunamál heimila og fyrirtækja í landinu.

Og nú vinna allir þættir í sömu átt, ríkisfjármál, peningastefna, kjarasamningar. Það gleðilega við kjarasamningsgerðina var að allir trúðu á stefnu ríkisstjórnarinnar um að hægt væri að vera með stöðugleika og lækkandi vexti. Á næstu mánuðum sjá landsmenn ríkisstjórnina standa við sinn hluta samninganna þegar á borð Alþingis kemur lækkun tekjuskatts, sérstaklega hjá lág- og millitekjuhópum, frumvörp um stuðning við leigjendur og aukinn stuðning við kaup á fasteignum svo eitthvað sé nefnt.

Ráðherrar Framsóknar hafa unnið gott starf. Mennta- og menningarmálaráðherra hefur eflt kennslu, kennara og kennaranám og árangurinn sést ekki hvað síst í stóraukinni aðsókn að kennaranámi. Í vetur munum við síðan sjá afrakstur ráðherrans í algjörri umbreytingu lánasjóðskerfisins við námsmenn sem mun þýða meiri stuðning og meiri jöfnuð og tryggja jafnrétti til náms óháð efnahag og búsetu. Já, það er stefna Framsóknar.

Barnamálaráðherrann leggur auk húsnæðismála ofuráherslu á að bæta aðstæður barna og foreldra sem sést best á því að innan skamms verður stigið það mikilvæga skref að lengja fæðingarorlof í 12 mánuði. Í því sambandi er rétt að minna á að það var einmitt ráðherra Framsóknar sem á sínum tíma gerði fæðingarorlof feðra að veruleika. Ráðherrann vinnur einnig að lausnum sem eiga að taka á húsnæðisskorti á landsbyggðinni. Af því sem ríkisstjórnin hefur áorkað er það ekki síst ánægjulegt að heilbrigðisstefna var samþykkt á síðasta þingi en hún á sér aðdraganda frá þarsíðasta kjörtímabili undir forystu Framsóknar. Það eru sjálfsögð mannréttindi að allir eigi að hafa jafnan aðgang að heilbrigðisþjónustu óháð efnahag, stöðu eða búsetu. Heilbrigðisráðherra hefur farið um landið, kynnt þetta og nú er innleiðingin að hefjast.

Góðir landsmenn. Hagsæld Íslendinga hefur ekki síst sprottið af landinu og hagnýtingu þess. Því er mikilvægt, og stendur hjarta mínu nærri, að styðja dyggilega við íslenska bændur og landbúnað þeirra. Það var sérstaklega ánægjulegt að sjá baráttumál Framsóknar staðfest um að standa vörð um lýðheilsu Íslendinga og heilbrigði dýra á síðasta þingi og með því koma í veg fyrir innflutning til framtíðar á sýktum matvælum, auk þess sem kolefnisspor þess er mjög stórt. Nú er því unnið að því að Ísland verði í fararbroddi þjóða í baráttunni gegn útbreiðslu sýklalyfjaónæmis með matvælum sem er að mati vísindamanna ein mesta ógnin við lýðheilsu manna í heiminum í dag.

Jarðamálin verða í brennidepli á næstu mánuðum, en brýnt er að setja skýrar reglur um kaup og sölu á jörðum. Þróun síðustu ára er algjörlega óviðunandi. Land er ekki eins og hver önnur fasteign. Við verðum að horfa til nágrannaþjóða okkar um það hvernig jarðamálum er best búin umgjörð. Vil ég í þeim efnum sérstaklega horfa til Danmerkur og Noregs sem hafa stífa umgjörð um jarðamál og hafa haft hana lengi. Þar virða menn eignarréttinn en um leið viðurkenna þeir að það er nauðsynlegt að hafa skýrar leikreglur því að land er ekki eins og hver önnur fasteign.

Lífsgæði og tækifæri þeirra sem búa utan höfuðborgarsvæðisins byggjast á skynsamlegri nýtingu landsins, auðlinda þess og samspili við verndun, sjálfbær nýting. Það má ekki búa svo um hnúta að engin þróun geti orðið í atvinnumálum úti um land. Íslendingar eru að sönnu góðir gestgjafar en landið og náttúran er ekki aðeins fyrir gesti, innlenda og erlenda. Hún er einnig fyrir þá sem kjósa að búa sér heimili og byggja upp starfsemi vítt og breitt um landið. Landsbyggðin vill ekki og á ekki að vera safn um liðna tíma menningar og náttúru. Landsbyggðin vill og getur, eins og hver annar Íslendingur, taka þátt í framþróun nútímans og framtíðarinnar, líka innan nýsköpunar, og taka einnig á þeim þáttum sem varða fjórðu iðnbyltinguna því að það getum við öll.

Samgöngumálin hafa frá upphafi kjörtímabilsins verið tekin föstum tökum. Verulegur viðsnúningur hefur orðið og er blásið til stórsóknar á öllum sviðum víðs vegar um landið. Við sjáum að markmið sem sett voru í stjórnarsáttmálanum um að hraða uppbyggingu eru að verða að veruleika, hvort sem litið er til landsbyggðar eða höfuðborgarsvæðisins. Með auknum orkuskiptum í samgöngum horfum við fram á nýja tíma í fjármögnun til vegakerfisins, leiðir sem endurspegla afnot af þjóðvegakerfinu og sanngjarnt flýtigjald til að hraða stærri framkvæmdum. Þá er unnið að lausnum til að styrkja uppbyggingu innanlandsflugs og almenningssamgangna.

Herra forseti. Landsmenn góðir. Ísland er um margt fyrirmyndarsamfélag sem er jafnan ofarlega á listum um hagsæld og lífsgæði í heiminum, deilir toppsætunum með nágrannaþjóðum okkar á Norðurlöndum. Og hvað er það sem við setjum efst? Jú, góð heilsa, góð samskipti fólks í millum, húsnæði, öryggi og atvinna. Þetta er okkur öllum mikilvægt, og þá ekki síður menntun, lýðræði og jöfnuður manna á milli. Ríkisstjórnin hefur skýra sýn hvað varðar lífsgæði og tækifæri á Íslandi og metnað til að gera stöðugt betur. Það er nefnilega gott að búa á Íslandi.