150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:10]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að spyrja um nokkur atriði en ég ætla að halda mig við það sem mér finnst einna mikilvægast á þessum dögum og mánuðum, innleiðingu laga um opinber fjármál. Lögin eru í fullu gildi. Það eru engar undanþágur frá neinu í lögunum en við skilum samt ekki fjármálaáætlun eða fjárlögum samkvæmt þeim lögum. Þegar embættismenn ráðuneyta koma á fund fjárlaganefndar tala þeir mikið um að menn séu enn að læra mjög mikið, enn sé verið að gera betur.

Allt í lagi, það er verið að taka skref í áttina en lögin eru samt í fullu gildi. Þess vegna langar mig til að spyrja fjármálaráðherra um þessa innleiðingu sem er alltaf verið að segja að sé enn þá í gangi þrátt fyrir að það sé engin lagaheimild fyrir henni: Hvert er planið? Hvenær verðum við komin á þann stað að við förum eftir lögum um opinber fjármál að fullu? Hver eru skrefin í áttina að því að ná því? Við erum ekki þar núna þrátt fyrir að lögin segi annað.

Í einföldum atriðum má þá spyrja: Væri ekki eðlilegt að ráðherra kæmi með breytingu á lögum um opinber fjármál sem væri með tímasettum skrefum um það hvenær hinu og þessu sem vantar upp á sé bætt við þannig að við vitum nákvæmlega við hverju er að búast í næstu fjármálaáætlun og við hvað í lögunum verður staðið og hvað ekki, hvað væri næst á dagskrá o.s.frv.?