150. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[11:21]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta var mikil lesning yfir hausamótunum — á hagfræðingunum. Það eru hagfræðingarnir sem hv. þingmaður er að beina sjónum sínum að. Hv. þingmaður verður bara að gera upp við sig: Á ríkisstjórnin að byggja á opinberum hagspám eða einhverri tilfinningu fyrir því sem kynni að gerast? Það er hægt að gagnrýna þá sem hafa sett saman hagspárnar — og við höfum notað þær til grundvallar. Það er alveg rétt að þær hafa ekki gengið eftir og stundum hafa stórir, ófyrirséðir atburðir komi upp á. Ég nefni loðnubrestinn, ég nefni augljóst gjaldþrot í ferðaþjónustu.

Undirliggjandi spurningin er þessi: Hvert er hið raunverulega vandamál sem hv. þingmaður er að lýsa og hvar er það að bitna á fólkinu í landinu? Hvar eru mistökin við áætlanagerð að koma fram sem skellur fyrir heimilin? Er það í verðbólgunni? Nei, það getur nú varla verið, hún er alveg innan marka. Er það í vaxtastiginu? Vaxtastig hefur aldrei verið lægra. Er það að birtast í því að við náum ekki að standa við áætlun um uppgreiðslu skulda? Nei, við erum á undan áætlun í uppgreiðslu skulda. Er það í atvinnustiginu? Hvar er það sem þessi rosalegi vandi sem hv. þingmaður hefur verið að tala um svo misserum skiptir brýst fram og kemur niður á fyrirtækjum og almenningi? Hvað er það í opinberum fjármálum sem við ættum að vera að gera með allt öðrum hætti við þessar aðstæður?

Þeir sem hafa verið að svara þessum spurningum hafa svarað þeim þannig gagnvart ríkisstjórninni að hún sé á réttri braut, ella hefði ekki tekist að gera langtímakjarasamninga, ella væru vextir Seðlabankans ekki á niðurleið, ella værum við ekki í færum til að taka á þeim áföllum sem nú hafa orðið án þess að hefja strax mikla skuldasöfnun. Þannig að ég spyr bara: Er það eitthvað alvarlegt mál í sjálfu sér að menn stilli fram áætlun á grundvelli hagspár og aðlagi sig síðan að henni og hafi getu til þess, eins og við erum að sýna fram á að við höfum í þessu fjárlagafrumvarpi? Hvert er vandamálið við (Forseti hringir.) að það sé ekki 30 milljarða afgangur á næsta ári heldur bara ríkisfjármálin í jafnvægi, ef það hentar hagkerfinu betur?