150. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[18:46]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Frú forseti. Það er ánægjulegt að verið sé að tryggja til langs tíma rekstur náttúrustofanna og ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra sé að tala um samninga allt til 2023. Ráðherrann getur haldið áfram með náttúrustofurnar í næsta svari.

Það eru gríðarlegir möguleikar í metani og það er áhugavert vegna þess að þetta er náttúrlega mjög hvarfgjörn lofttegund og einn metanbíll á götu getur nánast kolefnishlutleyst heilu göturnar, metanið er 21 sinnum hvarfgjarnara en CO2. Það er áhugavert og væri ánægjulegt ef það væri aðeins meira tekið á því almennt í umræðunni að sá orkugjafi sé nýttur betur. Hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson var að benda mér á að það væri talað um að allt að 20.000 bílar gætu verið knúnir á slíkum orkugjafa frá Hellisheiðarvirkjun.

Mig langaði rétt að minnast á skógrækt og landgræðslu. Nú var töluverð áhersla á þetta í fjármálaáætlun hjá okkur í vor og ég vil halda aðeins áfram með hvernig það endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu núna, áherslan á skógrækt og landgræðslu sem kolefnisbindingu, hvernig þau mál standa í fjárlagafrumvarpinu og hvort hæstv. ráðherra geti lýst því hver framtíðarsýnin er á það á næstu árum, hvernig við sjáum fyrir okkur kolefnisbindingu í gegnum landgræðslu og skógrækt. Það er mjög mismunandi eftir tegundum í skógræktinni hvernig bindingin er. Eru sérfræðingar á því sviði komnir með einhverjar hugmyndir um hvar áherslurnar liggja í kolefnisbindingu í gegnum t.d. skógræktina? Ég læt þetta duga að sinni.