150. löggjafarþing — 5. fundur,  16. sept. 2019.

bráðamóttaka Landspítalans.

[15:35]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Í desember 2018, fyrir tæpu ári, voru sambærilegar fréttir í fjölmiðlum um alvarlega stöðu á bráðamóttöku Landspítala. Þá tók embætti landlæknis stöðuna út og gerði tillögur bæði til Landspítala og ráðuneytisins um aðgerðir. Niðurstaða úttektarinnar í desember var sú að sjúklingar sem biðu innlagnar þyrftu að bíða allt of lengi á bráðamóttöku. Það voru allt of margir sjúklingar á bráðamóttökunni á hverjum tíma. En bráðamóttökunni tókst að rækja bráðahlutverk sitt vel, þ.e. dvalartími þeirra sem gátu farið heim að meðferð lokinni var innan viðmiða, en það var sannarlega allt of mikið álag á starfsfólk, ekki síst hjúkrunarfræðinga, og skráðum atvikum hafði fjölgað, einkum byltum, húsnæðið studdi engan veginn við að sjúklingar biðu lengur o.s.frv.

Vandinn sem var þarna dreginn upp var fyrst og fremst vegna tveggja þátta sem hv. þingmaður nefnir hér, annars vegar útskriftarvanda og hins vegar mönnunarvanda. Nú stendur yfir eftirfylgni úttektar þar sem embættið er að skoða hvað hefur gerst síðan síðast. Við þurfum að fylgja því eftir hvort eitthvað hafi verið brugðist við. Það sem stóð upp á ráðuneytið var kannski fyrst og fremst að opna fleiri hjúkrunarrými og opna sjúkrahótel. Það höfum við gert síðan í desember. Við höfum nú þegar bætt við 40 hjúkrunarrýmum og opnað sjúkrahótelið sem hvort tveggja hefur með einhverjum hætti létt á fráflæðisvandanum. Útskriftarvandinn er enn til staðar og ekki síður þarf að takast á við mönnunarvandann og þar höfum við gripið til tiltekinna aðgerða sem ég mun fara betur yfir í síðara svari mínu.