150. löggjafarþing — 7. fundur,  19. sept. 2019.

varnarmálalög.

11. mál
[14:49]
Horfa

Flm. (Kolbeinn Óttarsson Proppé) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sennilega ekki þolinmóðasti maður í heimi og er stundum of bráðlátur. Í það minnsta bað ég um að fá að fara í andsvar við hv. þingmann af því að mér fannst ég þurfa skýringar á afstöðu hans sem hann kom svo síðan með. Mig langar samt að nýta tækifærið og ræða aðeins við hv. þingmann. Fyrst vil ég þó byrja á að þakka hv. þingmanni ræðu hans. Mér finnst hann sýna í hnotskurn það sem ég kom inn á og vonaði að myndi gerast, að algjörlega óháð afstöðu fólks til veru í Atlantshafsbandalaginu væri hægt að styðja þetta mál. En ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að hann vildi að Ísland væri fullgildur aðili í samfélagi þjóða, ekki smásíli sem smeygi sér á milli. Ég get verið algjörlega sammála hv. þingmanni hvað það varðar.

Mig langar hins vegar að spyrja hv. þingmann hvort hann telji það að vera t.d. ekki aðili að Atlantshafsbandalaginu sé í mótsögn við það að vera ekki fullgildur aðili í samfélagi þjóðanna. Við eigum í alls kyns samskiptum og samstarfi við þjóðir og lönd í kringum okkur og kannski ágætt að hafa í huga í umræðu um þessi mál að lönd eins og Austurríki, Finnland, Svíþjóð, Sviss og Írland eru ekki aðilar að Atlantshafsbandalaginu. En mér dettur ekki í hug í eina sekúndu að hv. þingmaður telji að þau lönd séu ekki fullgildir aðilar í samfélagi þjóðanna.