150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:40]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að koma upp aftur vegna þess að ég get ekki sætt mig við það að hæstv. utanríkisráðherra tali um þá orðræðu og kosningabaráttu sem átti sér stað í aðdraganda Brexit-kosninganna sem eitthvað sem gerðist í hita leiksins. Við erum að glíma við algerlega nýjan veruleika þegar hagsmunahópar, samtök, nýta sér tækni algóritma til þess að safna um okkur upplýsingum, hafa áhrif á hegðun okkar eða þeirra kjósenda sem hefðu ekki hugsað sér að kjósa. Það er grafalvarlegur hlutur, sama hvort ósannindin voru alltaf bara á annan veginn. Þar er ég ekkert sannfærður og er ekki að halda því fram. En það komu líka fram, fyrir utan það hvernig menn léku sér með persónuupplýsingar fólks, fullyrðingar frá núverandi forsætisráðherra Bretlands um gríðarlega fjármuni sem myndu streyma inn í heilbrigðiskerfið við útgöngu sem enginn fótur var fyrir.

Hæstv. utanríkisráðherra talaði um að verið væri að borga peninga inn í sambandið og við erum að borga pening inn í þetta samstarf. Ég gæti líka alveg sagt við hæstv. utanríkisráðherra: Ég fór og borgaði pening í Melabúðinni, 3.500 kr. í gær, 2.000 kr. í fyrradag, 5.000 kr. á laugardaginn, en það þarf að fylgja sögunni að ég fékk kjúkling og mjólk og kók og ýmislegt annað. Við fáum nefnilega einnig hluti til baka og Bretar hafa svo sannarlega fengið eitthvað til baka úr samstarfi sínu við Evrópusambandið. Það þarf líka að hafa í huga.