150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

ráðstafanir vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu og Evrópska efnahagssvæðinu.

142. mál
[16:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta hangir að vísu saman við það sem þeir sem vildu ganga út vísuðu til, að það væri auknir fjármunir t.d. í heilbrigðiskerfið, og þetta er nokkuð sem allir geta flett upp, t.d. á netinu, það eru gefnar út á hverju ári tölur um það hvað þjóðir greiða með sér inn í Evrópusambandið. Bretland greiðir gríðarlega mikið með sér í Evrópusambandið. Auðvitað fá þeir til baka líka. En ef við tökum nettótöluna greiða Bretar gríðarlega mikið inn. Nú er eitt af verkefnum Evrópusambandsins þegar þessu er lokið að finna flöt á því hvernig það eigi að loka gatinu. Þetta eru, ef ég man rétt, í kringum 10% nettó, ekki brúttó. Ég veit alveg að það er borgað inn og það kemur út en ég er að tala um nettó. Það liggur fyrir að þeir sem greiða mest inn eru lönd eins og Norðurlöndin, Bretland, Þýskaland og Frakkland. Spánverjar (Gripið fram í.) voru í fyrsta skipti held ég í fyrra að greiða inn, þeir hafa alltaf fengið nettó út. Þetta er bara staða mála. Ég ætla síðan ekkert að fara yfir og leggja mat á það hver gekk lengra í að safna persónuupplýsingum eða slíkt. Bretland er þróað lýðræðisríki og í þessu ganga miklar ásakanir á víxl og ég treysti þeim til að fara með þau mál.

Ég vildi líka nefna, vegna þess að hv. þingmaður vísaði til þess ef Bretar fengju betri viðskiptakjör, að eitt af því sem við höfum verið að benda á í málatilbúnaði okkar gagnvart Evrópusambandinu er að það er búið að gera fríverslunarsamninga við Japan og Kanada þar sem þeir eru með fulla fríverslun. Við erum nokkurn veginn með fulla fríverslun en það þarf að loka því bili, að mér finnst, það er mín skoðun og við fylgjum þessu eftir þannig að fordæmin eru til staðar. En ég þakka hv. þingmanni og öðrum þingmönnum fyrir umræðuna.