150. löggjafarþing — 10. fundur,  25. sept. 2019.

búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum.

41. mál
[17:36]
Horfa

Flm. (Guðmundur Ingi Kristinsson) (Flf):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir þingsályktunartillögu Flokks fólksins um búsetuöryggi í dvalar- og hjúkrunarrýmum. Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að undirbúa og leggja fram lagafrumvarp þar sem kveðið er á um eftirfarandi:

„1. Ríki og sveitarfélögum verði skylt að útvega öldruðum, sem hafa gengist undir færni- og heilsumat, dvalar- eða hjúkrunarrými eigi síðar en 60 dögum eftir að niðurstöður mats um að viðkomandi eigi rétt á slíku úrræði liggja fyrir.

2. Færni- og heilsumat skuli gefið út eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn um það berst.

3. Öldruðum einstaklingum, sem dvalist hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar, verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými.

4. Læknar geti ákveðið að einstaklingur sem bersýnilega þarf að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til þess að fá dvöl á viðeigandi stofnun.

5. Maki eða sambúðarmaki heimilismanns á stofnun fyrir aldraða skuli, án tillits til þess hvort hann hafi gengist undir færni- og heilsumat, eiga þess kost að dvelja á stofnun ásamt heimilismanni. Viðkomandi öðlist þá sjálfstæðan rétt sem heimilismaður á stofnun fyrir aldraða. Ráðherra leggi fram frumvarp þessa efnis á haustþingi 2020.“

Þingsályktunartillaga þessi var áður lögð fram á 149. löggjafarþingi, 859. mál, og er nú endurflutt með breytingum.

Fjöldi þeirra sem bíða eftir hjúkrunarrýmum jókst um 60% á landsvísu á milli janúar 2014 og janúar 2018. Á sama tíma fjölgaði þeim sem bíða þurftu lengur en 90 daga eftir hjúkrunarrými um 35%. Frá árinu 2014 til ársins 2018 lengdist meðalbiðtími eftir hjúkrunarrými úr 91 degi í 116 daga. Af þeim 186 einstaklingum sem fengu úthlutað hjúkrunarrými á þriðja ársfjórðungi ársins 2014 biðu 57 einstaklingar lengur en 90 daga. Á þriðja ársfjórðungi árið 2018 biðu 77 einstaklingar af 175 lengur en 90 daga eftir því að fá hjúkrunarrými.

Árið 2017 voru almenn hjúkrunarrými á hjúkrunar- og dvalarheimilum landsins 2.526 en dvalarrými 281. Árið 2007 voru hjúkrunarrými tæplega 2.700 en dvalarrými ríflega 700.

Sveitarfélögin sjá um húsnæði fyrir hjúkrunar- og dagvistunarúrræði aldraðra en ríkið úthlutar fjármagni með hverjum og einum þeirra. Með þessu eru sveitarfélögin háð úthlutunum hjúkrunar- og dvalarrýma frá ríkinu og þannig strandar málið á því að sveitarfélög fá oft ekki, þrátt fyrir ítrekaðar óskir, fjármagn til að fjölga dvalar- og hjúkrunarrýmum og reka með viðhlítandi hætti.

Það eykur þrýsting á stjórnvöld ef hámark biðtíma eftir úrræði er lögfest. Ef ekki er fylgt lagaramma um hámark biðtíma getur það myndað skaðabótaskyldu vegna þess tjóns sem bið kann að valda þeim sem eiga rétt á úrræðinu. Því er lagt til að hámark biðtíma eftir dvalar- eða hjúkrunarrými verði 60 dagar.

Það eykur verulega biðtíma eftir dvalar- eða hjúkrunarrými ef fólk þarf að bíða lengi eftir færni- og heilsumati. Tryggja þarf að bið eftir færni- og heilsumati verði sem minnst svo að fólk geti hlotið viðeigandi úrræði sem fyrst. Það má gera með bættri mönnun og auknu fjármagni til verkefnisins. Því er lagt til að skylt verði að gefa út færni- og heilsumat eigi síðar en 10 dögum eftir að umsókn berst.

Ef enginn vafi leikur á því að einstaklingur þurfi dvalar- eða hjúkrunarrými eiga ekki að vera hömlur í kerfinu. Því er lagt til að öldruðum einstaklingum sem dvalið hafa lengur en 10 daga á sjúkrahúsi án sérstakrar meðferðar verði útvegað dvalar- eða hjúkrunarrými þó að færni- og heilsumat hafi ekki verið gert. Sú tilhögun spornar gegn fráflæðisvanda spítalanna og stuðlar að því að fólk komist í rétt úrræði strax. Þá er einnig lagt til að læknar geti ákveðið að einstaklingar sem bersýnilega þurfi að fá vistun í hjúkrunarrými þurfi ekki að undirgangast færni- og heilsumat til að fá dvöl á viðeigandi stofnun. Í slíkum tilvikum er tilgangslaust að lengja ferlið sem einstaklingur þarf að ganga í gegnum til að öðlast rétt á viðeigandi úrræði.

Eldri borgarar sem dvelja á stofnun fyrir aldraða eru oft þvingaðir til sambúðarslita þar sem þeir eiga ekki kost á að vera samvistum við maka eða sambúðarmaka sinn. Það er mannréttindamál að tryggja að íbúar á öldrunarstofnunum geti verið áfram samvistum við maka sinn. Markmið tillögunnar er að gera fólki mögulegt að búa áfram með maka sínum sem hefur af heilsufarsástæðum þurft að flytjast á heimili sem krefst færni- og heilsumats til búsetu. Því yrði ekki lengur áskilið að heilbrigður eða heilbrigðari maki byggi annars staðar en hinn veikari. Þannig yrði komið í veg fyrir þvinguð sambúðarslit.

Við vitum að við erum að eldast, þjóðin eldist hratt. Því verður þörfin eftir hjúkrunarrými meiri og meiri. Til þess að mæta þeirri þörf þurfum við líka að taka til á mörgum sviðum. Við vitum að verið er að opna hjúkrunarrými og ekki er hægt að opna það að fullu, kannski bara að hálfu leyti, vegna skorts á starfsfólki og þar er skortur á hjúkrunarfræðingum aðaláhyggjuefnið. Hjúkrunarfræðingar hafa í stórum hópum valið að vinna ekki við sitt starf. Það á að verða til þess að við förum að taka það til athugunar af alvöru hvers vegna í ósköpunum hjúkrunarfræðingar vilja ekki vinna við það fag sem þeir hafa lært. Þar held ég að sé aðallega undir mikið álag og vinnutími sem er ekki mannsæmandi, langar næturvaktir. Þess vegna þarf líka að huga að því, í samhengi við að koma þeim málum í lag, að gera vinnuumhverfi þeirra sem vinna á slíkum stofnunum viðunandi þannig að það verði hreinlega eftirsóknarvert að vinna við þessar aðstæður.

Við vitum líka að búið er að skera inn að beini hjá hjúkrunarstofnunum undanfarin ár. Búið er að skera niður allt sem hægt er að skera niður og samningar hafa gengið mjög illa við þá þjónustuaðila sem eiga að veita slíka þjónustu. Þarna þurfum við aldeilis að taka til hendinni og reyna að sjá til þess að sú þjónusta sé í boði á þann hátt að hún sé mannsæmandi fyrir alla og að ekki sé gengið svo hart fram að það þurfi að skera allt niður við trog, liggur mér við að segja, þannig að ekkert sé orðið eftir nema hrein og klár umönnun kvölds og morgna.

Við verðum líka að átta okkur á því að það er einn hópur þarna sem er í mjög erfiðri aðstöðu og þarf að bregðast hratt og vel við. Það eru þeir sem eru með heilabilun. Þar þurfum við að taka verulega á. Ef þessi þingsályktunartillaga yrði tekin til gagngerrar skoðunar og henni fylgt eftir er ég viss um að mikil bót yrði á. Þarna þarf líka, eins og ég segi, að taka tillit til og taka virkilega á þeirri þörf sem tengist alzheimer eða öðrum sjúkdómum sem eru gífurlega erfiðir og valda einstaklingum og fjölskyldum miklum erfiðleikum. Við þurfum virkilega að taka okkur á í því.

Við vitum líka að það er þyngra en tárum taki þegar verið er að aðskilja hjón í þessum tilfellum. Það sem er enn verra og er eiginlega óboðlegt er þegar einstaklingur fer á sjúkrahús og í staðinn fyrir að honum sé boðin aðstoð við að komast inn á hjúkrunarheimili eða samsvarandi stofnun er hann sendur heim þar sem makinn þarf að taka við viðkomandi einstaklingi og þjónusta hann, makinn sem oft er í svipaðri aðstöðu og á jafnvel ekki möguleika á því að taka við veikum maka sínum til þess að þjónusta hann. Þar af leiðandi erum við að búa til keðjuverkandi áhrif sem veldur því að í mörgum tilfellum bugast sá sem á að taka við veikum maka sínum. Við vitum að um þetta eru mörg dæmi og við eigum að sjá til þess að aldraðir fái, þeir eiga rétt á því, að lifa áhyggjulausu ævikvöldi. Þess vegna leggjum við þessa þingsályktunartillögu fram og vonum að hún beri árangur. Eitthvað verðum við að gera. Ef við ætlum ekki að gera neitt í dag, eða eins fljótt og auðið er, þá bið ég bara guð að hjálpa okkur. Öldruðum fjölgar hratt. Að vísu hefur verið talað um að auka heimilisaðstoð og heimahjúkrun, en því miður hefur það ekki skilað sér, eins og við vitum. Það vantar að ganga vel frá þeim málum og sjá til þess að þau virki. Á meðan svo er verðum við að grípa til þess ráðs að byrja strax að sjá til þess að nóg sé af hjúkrunarrýmum fyrir þá sem eru að eldast. Ef við gerum það ekki erum við í miklum vanda.