150. löggjafarþing — 13. fundur,  8. okt. 2019.

skráningarskylda félaga til almannaheilla með starfsemi yfir landamæri.

190. mál
[16:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að leyfa mér að ítreka nokkrar spurningar. Í fyrsta lagi: Hvers konar félög eru þetta? Ég hef heyrt einhverjar tölur en það segir mér ekki neitt um hvaða félög við erum að tala um. Hæstv. ráðherra segir að trúfélög séu undanskilin. Samt sem áður telur hún upp að þetta nái yfir félög sem noti fjármagn til þess að hafa eitthvað með trúmál að gera. Hvernig félög eru það? Hvaða menningartengdu félög sem hafa starfsemi yfir landamæri munu verða fyrir áhrifum af þessum lögum? Af hverju erum við að setja lög um félög sem við vitum ekki einu sinni hver eru? Hvaða félög eru þetta? Getur hæstv. ráðherra nefnt einhver dæmi um félög sem munu þurfa að uppfylla íþyngjandi kröfur vegna lagasetningarinnar?

Hæstv. ráðherra segir að ekki hafi verið haft samráð við þessi félög í við gerð þessa máls og þar liggur hundurinn grafinn. Í hinni löggjöfinni sem hæstv. ráðherra talar um var ekki um neinar íþyngjandi kröfur að ræða. Ég vil bara halda því til haga að mér finnst mjög mikilvægt þegar við erum að tala um að hafa áhrif á réttindi fólks og félagafrelsi að það sé alveg skýrt á hvaða grunni það er gert, að það sé haft samráð við viðkomandi aðila, að við skoðum meðalhófsregluna í því samhengi. Hefur það verið gert? Hefur meðalhófsreglan verið skoðuð í samhengi við þessa löggjöf? Það er mjög skýrt í álitum Feneyjanefndarinnar, Sameinuðu þjóðanna, Evrópuráðsins og allra þeirra alþjóðastofnana sem láta sig mannréttindavernd, félagafrelsi og félagasamtök varða, að það þurfi að gæta meðalhófsreglu við allar íþyngjandi kröfur á félagasamtök. Hvar var þetta samráð? Um hvaða félagasamtök er að ræða? Hvers vegna var ekki haft samráð við þau félög sem þetta nær yfir? Var meðalhófsreglan höfð í fyrirrúmi við gerð frumvarpsins? Af hverju í ósköpunum fengum við ekki sjá þetta fyrr?