150. löggjafarþing — 15. fundur,  9. okt. 2019.

gjaldfrjálsar krabbameinsmeðferðir.

37. mál
[17:52]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka flutningsmanni, hv. þm. Önnu Kolbrúnu Árnadóttur, kærlega fyrir framsöguna. Þetta er áhugavert og gott mál. Það er alltaf gott þegar við erum í stakk búin til að veita nauðsynlega þjónustu og við viljum vissulega að fólk hafi efni á að nýta sér þær meðferðir sem eru í boði. Staðreyndin er samt sú að við erum að kljást við takmarkaðar auðlindir þegar kemur að fjármögnun í heilbrigðiskerfinu og það er viðvarandi áskorun.

Í fyrstu langar mig að velta upp og biðja hv. þingmann að svara því af hverju það eigi sérstaklega við um krabbameinsmeðferðir. Við erum með greiðsluskyldu almennings í öllum mögulegum tegundum sjúkdóma og skalinn er mjög víður. Krabbamein eru mismunandi ágeng og mismunandi hættuleg og lífslíkur mismunandi góðar og meðferðir mismunandi erfiðar, rétt eins og á við um aðrar sjúkdómategundir. Hvað veldur því nákvæmlega að krabbameinið er tekið þarna út fyrir sviga? Samkvæmt þessari tillögu á það að fá hærri sess, ef svo má segja, í heilbrigðiskerfinu þegar kemur að greiðsluþátttöku almennings. Í greinargerð með tillögunni er talað um greiðsluþátttöku annars staðar á Norðurlöndum en þar kemur ekki fram neinn greinarmunur á krabbameinsmeðferð andspænis öðrum meðferðum. Þekkir hv. þingmaður til þess að í nágrannalöndum okkar sé krabbameinsmeðferðin tekin svona út fyrir?