150. löggjafarþing — 18. fundur,  15. okt. 2019.

framkvæmd EES-samningsins.

222. mál
[18:56]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir skýrsluna. Starfshópur um EES-samstarfið skilar mjög heildstæðu yfirliti yfir EES-samninginn, um með hvaða hætti honum hefur verið framfylgt hér á landi, hvernig hann hefur haft áhrif á íslenska löggjöf og einnig koma fram upplýsingar um hvað mætti gera enn betur.

Það er mjög athyglivert að grípa niður í skýrslunni. Margir þingmenn hafa lagt út frá úrbótapunktunum 15 og það er mjög ágætt og gott að vekja athygli á þeim en mig langar að tala aðeins um áhrifin sem EES-aðildin hefur haft á íslenskt hagkerfi og íslenskt þjóðarbú. Með samningnum komu til sögunnar reglur sem tryggðu fullt frelsi í viðskiptum með vöru og þjónustu, frjálsa för fólks og frjálsa fjármagnsflutninga, auk þess sem alþjóðlegar reglur um samkeppnismál voru leiddar í lög hér á landi. Hér höfðu verið gjaldeyrishöft og Samkeppniseftirlitið tók í rauninni við af verðlagshöftum. Íslenskur sjávarútvegur er kannski sá geiri sem hefur notið mests ávinnings af EES-aðildinni og þar af leiðandi íslenska þjóðarbúið, en við þá breytingu sem varð árið 1999 þegar ákvæði matvælalöggjafar ESB sem sneru að sjávarafurðum urðu að lögum hér á landi varð markaðssetning vöru og þjónustu erlendis einfaldari. Sjávarútvegsfyrirtækin fengu markaðsaðgang og tengsl þeirra við markaðinn gerbreyttust.

Evrópska efnahagssvæðið er langmikilvægasti markaður Íslands og í skýrslunni kemur fram að árið 2018 hafi 77,3% alls vöruútflutnings frá Íslandi farið á það svæði og jafnframt að frá ríkjum ESB og EES komi 60,6% alls vöruinnflutnings til landsins. Ég hef áður fjallað um það hér í dag hvaða breytingar samningurinn hefur haft á neytendavernd og eins má ekki gleyma því hvaða áhrif hann hefur haft á vinnuvernd. Við þekkjum það vel sem höfum starfað hér í þinginu að þær tilskipanir sem okkur berast varða í rauninni hvaðeina, m.a. rafmagnstæki á heimilum. Ég nefni stóra ryksugumálið sem tröllreið þinginu fyrir nokkrum árum og verður lengi í minnum haft, að ógleymdum ljósaperunum. [Hlátur í þingsal.] Okkur finnst þetta stundum vera svolítið hjákátlegt en þegar á heildina er litið erum við með samræmdar EES-reglur í gildi um öryggisbúnað, t.d. í samgöngum, gagnvart bílum og flugi, og siglingaöryggi. Þetta hefur þýðingu fyrir okkur. Íbúar hér geta búið, ferðast og unnið hvar sem er innan Evrópska efnahagssvæðisins og námsmenn okkar njóta styrkja til að mennta sig á svæðinu. Jafnframt þekkjum við það hvaða afleiðingar fjármálahrun getur haft og það er mikilvægt fyrir okkur að vera hluti af eftirlitskerfi með fjármálastarfsemi sem gildir á svæðinu.

Þetta hefur allt saman mótað samfélag okkar og í rauninni er erfitt að hugsa sér hvernig lífið væri hefðum við aldrei gerst aðilar að EES-samningnum.

Í skýrslunni er fjallað í talsvert ítarlegu máli um hagræn áhrif aðildarinnar. Hagsæld þjóðarbúsins hefur verið mikil ef við tökum undanfarin 25 ár. Milliríkjaviðskipti Íslands jukust talsvert eftir að Ísland gekk í EES og sumir óttuðust að þegar lítið land með sérhæfðan markað myndi gerast aðili að samningnum myndum við tapa sérkennum okkar og kannski tapa á því að vera með. Frjáls viðskipti og aðgangur að mörkuðum hafa hins vegar skipt okkur gríðarlega miklu máli og við þekkjum það hversu mikið samfélag okkar hefur breyst. Það er ekki bara þannig að neytendur hafi nú aðgang að fjölbreyttari vörum til að kaupa í verslunum heldur eru mun meiri kröfur gerðar til þeirra sem eru að selja og reyna að koma sér fyrir á markaðnum. Við þekkjum það t.d. varðandi eftirlit með raftækjum. Þetta skiptir máli.

Í skýrslunni er vikið talsvert að niðurstöðum þýsku rannsóknastofnunarinnar Bertelsmann Stiftung sem reyndi að meta hagrænan ávinning sameiginlega markaðarins fyrir Evrópuríki og svæði innan Evrópu. Stofnunin tók Ísland, Noreg og Sviss með í þessa úttekt. Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta áhrif sameiginlega markaðarins á verga landsframleiðslu á hvern íbúa og ábatinn var reiknaður niður á hvern íbúa. Hér kemur fram að hagrænn ábati Íslands vegna þátttöku í sameiginlega markaðnum sé mikill. Samkvæmt athugun stofnunarinnar mælist velferðarávinningur hvers Íslendings ríflega 1.000 evrur á ári, þ.e. 140.000 kr. Miðað við niðurstöðurnar er Ísland eitt þeirra ríkja sem hefur hagnast hvað mest, þegar litið er á ávinning á hvern íbúa, á því að vera aðili að sameiginlega markaðnum. Við hljótum að vera ánægð með þetta. Þessar niðurstöður fara saman við niðurstöður Samtaka atvinnulífsins sem gerðu litla könnun á þessu ári og eins rímar þetta vel við skýrslu Hagfræðistofnunar þar sem teknar voru saman upplýsingar um áhrif samningsins um EES á íslenskt efnahagslíf. Hún kom út í janúar 2018.

Í heildina tekið hefur þessi aðild haft gríðarleg áhrif á hagkerfi okkar til hins betra og það er ánægjulegt að sjá það hér í ítarlega rökstuddu máli.