150. löggjafarþing — 20. fundur,  17. okt. 2019.

smálánafyrirtæki.

[10:54]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Herra forseti. Ég kann að meta kjarnyrtar spurningar og vildi að ég gæti svarað þeim eins kjarnyrt sem ég get örugglega ekki. Svarið við fyrri spurningunni er: Nei, frumvarpið eitt og sér gerir ekki nóg til að ná tökum á umhverfi og vanda sem þessum lánveitingum fylgir, enda er frumvarp í vinnslu í fjármálaráðuneytinu og vinna með dómsmálaráðuneyti og annars staðar er í frekari skoðun upp á frekari aðgerðir. Við spurningunni um hvort ég telji þetta raunverulega hafa áhrif er svarið klárlega: Já, með frumvarpinu eflum við rétt neytenda. Við gerum það skýrt að íslensk lög gilda þrátt fyrir að fyrirtæki fari úr landi og ætli sér að vera í því regluverki sem þar gildir. Við erum að segja að það verður ekki. Ef neytandi á Íslandi tekur slíkt lán gilda um það íslensk lög. Neytandi þarf þá ekki að greiða neitt umfram höfuðstól. Það sem við erum síðan frekar að vinna að er að ekki sé hægt að innheimta lánin þegar farið er til að mynda yfir 50% árlega hlutfallskostnaðinn.

Ég hef heyrt margar hugmyndir um alls konar leiðir til að reyna að ná betri tökum á þessu umhverfi. Það er óheilbrigt að þeir sem veita þessi lán hagnist mest á því að lánveitandi fari í vanskil sem fyrst. Það er óheilbrigt. Þessi lán eru óskynsamleg og þau eru vond. Ég hef reynt að finna tillögur til að hrinda í framkvæmd sem bíta þá sem brjóta lögin þannig að það hætti að borga sig að bjóða ólögmæt lán. Þá þarf kerfið að vera einhvern veginn þannig að það geti hreinlega ekki rukkað ólögmæt lán. Það er alveg sama hvað neytandinn fær miklar upplýsingar um stöðu sína, það dugir ekki til. Það dugir almennt ekki til og það dugir ekki til í þessum tilvikum þegar við vitum að það er oft fólk sem á erfitt sem leitar í þessi lán í örvæntingu.