150. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2019.

jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta hjá hinu opinbera.

98. mál
[16:32]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Eins og fram kemur í þingsályktunartillögunni sem vísað er til er markmið hennar m.a. að vinna að jafnræði við launasetningu ólíkra starfsstétta sem vinna hjá hinu opinbera og einnig að greina launakjör ólíkra starfsstétta. Þannig var í svari mínu við sambærilegri fyrirspurn síðasta vor sagt að á vettvangi kjaramálaráðs, sem er formlegur samráðsvettvangur ríkis og sveitarfélaga, þar á meðal Reykjavíkurborgar, hafi verið samþykkt sameiginleg kjarastefna þessara aðila. Markmið kjarastefnunnar er m.a. að tryggja jafnræði í launasetningu opinberra starfsmanna, líkt og þingsályktunin kveður á um, og einnig að auka gagnsæi um laun og önnur kjör og tryggja samkeppnishæfni hins opinbera á vinnumarkaði.

Í kjarastefnunni kemur einnig fram að opinberir vinnuveitendur vinni saman að bættri launatölfræði og samræmdri nýtingu upplýsinga um laun og launaþróun. Kjarastefnan er ekki bara orð á blaði. Samstarf opinberra vinnuveitenda er mikið, bæði formlega og óformlega, og samstarfið er í samræmi við markmið stefnunnar. Þá koma þessi atriði jafnframt til umfjöllunar þegar kjarasamningar eru gerðir. Þannig kemur málefnið til reglubundinnar umfjöllunar meðal þátttakenda á opinbera vinnumarkaðnum. Fram til þessa hafa þó ekki verið haldnir formlegir fundir sérstaklega um þetta málefni sem slíkt með aðilum vinnumarkaðarins.

Í þingsályktuninni og einnig í ræðu sem hv. þingmaður og fyrirspyrjandi hélt þegar tillagan var lögð fram er lagt til að ráðist verði í greiningu á launakjörum fjölmennra kvennastétta, svo sem kennara og heilbrigðisstarfsfólks, í samanburði við aðrar stéttir með sambærilega menntun og ábyrgð sem starfa hjá hinu opinbera. Þetta er sama greiningarvinna og fram fer í starfshópi sem var settur á laggirnar í samræmi við samkomulag undirritað 19. september 2016 um breytingar á lífeyriskerfi opinberra starfsmanna. Starfshópurinn er skipaður fulltrúum vinnuveitenda ríkisins, sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar ásamt þremur fulltrúum bandalaga opinberra starfsmanna. Markmið þessarar vinnu er að meta og jafna launamun á milli hins opinbera og almenna markaðarins. Greiningarvinnan er nauðsynleg til að komast að hlutlægri niðurstöðu í þeim efnum en hún nýtist einnig til að leggja mat á launadreifingu og launamun hinna ýmsu starfsstétta hjá hinu opinbera. Þannig uppfyllir hún skilyrði þingsályktunartillögunnar og nýtist í þeim efnum. Niðurstaða greiningarvinnunnar liggur ekki fyrir en þegar þar að kemur verður hún einnig mikilvægt framlag til að ná markmiðum þessarar þingsályktunartillögu. Starfshópurinn hefur hist reglulega og vinnunni miðar ágætlega áfram.

Ég leyfi mér sömuleiðis í þessu sambandi að benda á að í maí sl. skrifuðu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins undir samkomulag um hlutverk og umgjörð nýrrar kjaratölfræðinefndar. Nefndin er samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga. Unnið er að stofnun nefndarinnar og gangi störf hennar samkvæmt væntingum má ætla að áður en langt um líður verði tölfræðiupplýsingar um laun betri og gæði greiningarvinnu þar með einnig.

Mig langar undir lokin að nefna örstutt, og endurtaka þannig orð mín frá því í vor, að við erum hérna að ræða um viðfangsefni sem er dálítið margslungið. Það er ekki alveg einfalt, það eru ekki til nein einföld svör. Það verður ekki leyst með einni aðferð, einu átaki í skyndi, en þeim mun mikilvægara er að málið sé rætt og að við séum stanslaust að. Eins og ég hef rakið er á mörgum sviðum í samtali við vinnumarkaðinn verið að taka þessi mál til skoðunar og við erum að færast í rétta átt, að því er ég tel. Hins vegar segir reynslan, og ég held að hv. þingmaður þekki það mjög vel sjálfur úr sínu fyrra starfi, að samanburður t.d. milli einkageirans og opinbera geirans getur verið gríðarlega snúinn og jafnvel þó að menn séu með tölur fyrir framan sig eiga þær sér alltaf einhverjar skýringar og einhvern bakgrunn og erfitt getur verið að festa fingur á nákvæmlega öllum réttindum alls staðar (Forseti hringir.) sem eigi að taka með í slíkan samanburð.

Ég þakka fyrir umræðuna. Þetta er mikilvægt málefni og ég vonast til að á þessu kjörtímabili náum við verulegum áföngum í að gera betur á þessu sviði.