150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

þjóðarsjóður.

243. mál
[15:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú síðast var ég á fundi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington og þar var talsvert spurt um framgang þessa máls. Greinilegt var að sérfræðingar sjóðsins eru áhugasamir um að okkur takist að lögfesta tilvist þjóðarsjóðs og myndu telja það mjög til framdráttar. Það hefur sömuleiðis komið fram í samtölum við matsfyrirtæki að þau hafi áhuga á málinu og gefið er í skyn að tilvist slíks sjóðs gæti verið til þess fallin að auka lánshæfismat á Íslandi eða styrkja það.

Varðandi ábendingar frá OECD er þar fyrst og fremst um þá ábendingu að ræða að hið opinbera þurfi að fjárfesta meira og ég get tekið undir það, enda erum við að bæta í opinbera fjárfestingu. Þar er bent á að ein leið til að auka fjárfestinguna væri að nýta fjármuni sem myndu losna við arðgreiðslur frá orkufyrirtækjum en við höfum líka margar aðrar leiðir. Við gætum t.d. nýtt ávinning af sölu banka en við höfum nú bundið vel rúmlega þá fjárhæð sem er verið að ræða um í þessu samhengi í tveimur fjármálafyrirtækjum. (Forseti hringir.) Með því að losa um eignarhald ríkisins á þó ekki nema öðrum þeirra myndum við losa um gríðarlega háar fjárhæðir til þess einmitt að fara í fjárfestingu eins og OECD bendir á að sé mikilvægt.