150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:49]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að það geti falist hagræði í því að reka saman stofnanir eins og þessar tvær, sérstaklega hvað varðar alls konar innbyrðis þjónustuþætti. Þarna er ég að vísa til samlegðar í t.d. tæknimálum, rekstri upplýsingakerfa, hugsanlega þegar lengra inn í framtíðina er komið í húsnæðismálum, í innkaupum, í mannauðsstjórnun o.s.frv. Þannig að sameiginleg eining geti náð meiri slagkrafti og það verði til hagræðis sem mun auka getu okkar til að setja fjármuni þangað sem við viljum fyrst og fremst beina þeim, í sjálf verkefnin á landamærum, eins og hv. þingmaður nefnir. Sterkari stofnun getur betur náð slíkum markmiðum að mínu áliti. Það tengist því að við þurfum á sumum starfsstöðvum, t.d. á landsbyggðinni, að sinna þessum verkefnum af meiri eftirfylgni og með meiri mannskap, eins og hv. þingmaður kom inn á að hefur verið mjög mikil áskorun. Út af bæði fjölgun ferðamanna og ekki síður vegna hælisleitenda hefur reynt mjög á þessa starfsþætti.

Spurt er hvort ég hafi ekki áhyggjur af því að þeir sem eru tollgæslumegin í þessari sameiningu hafi efasemdir eða áhyggjur. Jú, ég hef tekið eftir því og þess vegna kallaði ég eftir því að brugðist yrði við því. Ein viðbrögðin eru þau að í undirbúningi þessa máls er tekin ákvörðun um að koma á fót sérstakri einingu undir stjórn tollgæslustjóra sem heyri undir ríkisskattstjóra. Það eru viðbrögð í þeim málum. Það má hafa í huga að þeir sem vísað er til hafa ekki í einu og öllu verið sáttir við stöðuna eins og hún er. Vonandi getur þetta orðið til þess að bæta starfsaðstæður þeirra.