150. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2019.

tollalög o.fl.

245. mál
[17:51]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það kemur líka fram í umsögn tollvarðafélagsins að samráð við félagið og félagsmenn hafi verið algerlega ónógt í undirbúningi að þessu frumvarpi. Spurningin er: Er þá ætlunin núna, t.d. meðan þetta mál verður í meðförum þingsins, að taka upp sérstakt samráð við starfsmannafélögin, t.d. Tollvarðafélag Íslands, til að menn nálgist þetta verkefni með jákvæðari hætti en hér er?

Önnur spurning. Ýmis tæknibúnaður sem er nauðsynlegur til tollgæslu á landamærum er mjög af sér genginn víða. Þá hlýtur að vakna spurning: Ætla menn um leið og starfsemin verður styrkt með því að hér verði til stærra embætti, og þá væntanlega með meiri slagkraft, að veita hina nýja embætti þann heimanmund að tæknimálin verði færð til betri vegar og þau tæki sem tollgæslan, sérstaklega á landamærum, hefur yfir að ráða og eru af sér gengin verði endurnýjuð með öflugri hætti en búið er að gera sl. tíu ár eða svo? Það er auðvitað rétt sem hæstv. ráðherra talaði um varðandi bæði aukningu í ferðamennsku og að hælisleitendum hefði fjölgað. Ég vil líka vekja athygli á því að hraðsendingar og póstsendingar hafa margfaldast. Ég vil einnig minna á að það er núna verið að sækja mjög á Ísland með innflutning á fíkniefnum. Við sjáum að þar er mikil aukning og ég get farið betur yfir það á eftir. En mig langar að vita: Hvernig ætla menn að bregðast við þessu þegar nýtt embætti kemst á laggirnar?