150. löggjafarþing — 24. fundur,  23. okt. 2019.

grænn samfélagssáttmáli.

31. mál
[16:59]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (frh.):

Virðulegur forseti. Eins og ég hef komið inn á áður er þetta tillaga til þingsályktunar um grænan samfélagssáttmála Samfylkingarinnar og Pírata og er hið besta mál og ég styð hana heils hugar. Ég hef alltaf áhyggjur þegar byrjað er að tala um kolefnisspor, mengun og þau málefni vegna þess að nú þegar er í bígerð að taka upp urðunarskatt. Ég óttast að sá skattur eigi eftir að bitna mest á þeim sem síst skyldi vegna þess að það er einhvern veginn þannig að því fleiri gjöld sem leggjast á heimili, þeim mun verri staða er hjá þeim sem eru verst settir í þessu þjóðfélagi, t.d. öryrkjum og láglaunafólki. Það má ekki og á ekki að bitna á þeim þó að við tökum til í loftslagsmálum okkar. Það sem er líka furðulegt í samhengi við okkur Íslendinga er að við virðumst ekki ætla að læra af mistökum annarra þjóða. Það sem ég hef oft furðað mig á er að aðrar þjóðir virðast endurtaka sama vandamálið. Aftur og aftur kemur upp sama vandamálið hjá þjóðum og þar er ég t.d. að tala um það sem er gífurlega mengandi og eyðandi, skógareldar. Við fáum fréttir af því reglulega að heilu ferkílómetrasvæðin brenni og þetta skeður aftur og aftur, liggur við á sama blettinum. Engum virðist detta í hug að byrja strax að búa til brunabelti og grisja og okkur dettur það ekki heldur í hug á Íslandi. Við framleiðum skóga og gróðursetjum bara í beinni röð algjörlega óháð því hvað gæti skeð. Síðasta sumar var t.d. mjög þurrt og við erum engan veginn í stakk búin að takast á við skógarelda. Við erum með stóra og mikla skóga á Hallormsstað og víðar og það er ekkert farið að huga að brunahólfum, hvernig á að verjast eldi og hvernig á að koma að því að slökkva hann. Við virðumst loka augunum og bíða með að byrgja brunninn þangað til við erum dottin ofan í hann.

Við sjáum þetta líka í veðurfarslegum breytingum og við erum að horfa á það úti í heimi að eyjar og sker eru hreinlega að sökkva í sæ og þess vegna ber okkur líka skylda til að hlusta á unga fólkið. Okkur hefur verið bent á að það sé orðið áhyggjufullt. Sumir vilja draga úr þeim áhyggjum og segja að þetta sé ekki rétt og ekki vísindalega rétt og að þetta sé aðeins einhver endurtekning á því sem áður hefur verið. Ég trúi því ekki, ég sé vána. Við erum að upplifa það, við sjáum öfgar í veðrinu. Við sjáum afleiðingar af hlýnun jarðar og þess vegna ber okkur skylda til að sjá til þess að koma þeim hlutum í lag.

Eins og ég segi styð ég þessa tillögu heils hugar og ég vona heitt og innilega að við tökum okkur til núna og hlustum á ungt fólk sem er búið að standa í því núna undanfarið ár á hverjum einasta föstudegi að benda okkur á vána. Það vill að við hlustum og að við gerum eitthvað. Mér líst mjög vel á að við höldum ráðstefnu og í því samhengi verðum við að muna að bjóða unga fólkinu að koma að borðinu. Við þurfum að fá unga fólkið þangað, líka til að það sjái að verið sé að gera eitthvað. Ég óttast því miður að viljinn sé ekki nógu góður og síðan er alltaf spurningin hvað þetta kostar og þá ræður alltaf gróðasjónarmiðið. Því miður hefur það gert það undanfarin ár og virðist vera enn við lýði. Ég vona heitt og innilega að við snúum blaðinu við og tökum okkur á í þeim málum.