150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:21]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi á þskj. 272, 251. mál, um breytingu á lögum um lax- og silungsveiði. Í frumvarpinu eru lagðar til fáeinar breytingar á lögum um lax- og silungsveiði. Þar ber fyrst að nefna ákvæði sem ætlað er að styrkja minnihlutavernd í veiðifélagi með sérstökum reglum um atkvæðavægi á fundum. Því næst eru gerðar tillögur um breytingar á skipan arðskrárnefndar og loks er lagt til að dregið verði úr milligöngu hins opinbera við greiðslu kostnaðar af störfum nefndarinnar. Ég mun nú víkja nánar að einstökum þáttum frumvarpsins.

Svo sem flestum er kunnugt mæla lög um lax- og silungsveiði fyrir um skyldu manna til að vera í veiðifélagi og rétt til að taka arð af veiði samkvæmt arðskrá hvers veiðifélags. Um störf veiðifélaga eru síðan nánari ákvæði í lögunum en hér hefur sérstaka þýðingu að mælt er fyrir um að eigendur eða ábúendur jarða sem njóta veiðiréttar fari með eitt atkvæði hver á félagsfundi veiðifélags. Mikilvægasta ákvörðun hvers veiðifélags í laxveiðiá er ráðstöfun veiði með samningum við leigutaka, yfirleitt til nokkurra ára í senn. Á fundum veiðifélaga er meginreglan sú að atkvæðavægi er jafnt. Með frumvarpi þessu er leitast við að tryggja betur vernd minni hluta félagsmanna í veiðifélögum. Að þessu atriði var lítt hugað við síðustu endurskoðun laganna vorið 2006 og féllu þá raunar úr gildi þau fyrirmæli 2. mgr. 48. gr. eldri laga að byggi maður á fleiri en einni jörð skyldi hann engu að síður aðeins hafa eitt atkvæði á félagsfundi. Þá hefur gerst frá þeim tíma að meira kveður að því en áður að keyptar séu upp laxveiðijarðir í einni og sömu ánni í fjárfestingarskyni, sem leitt getur til þess að minni hluti í veiðifélagi verði til lengri tíma áhrifalítill og einn aðili drottni yfir málefnum félagsins. Hinar sérstöku reglur laga um lax- og silungsveiði um meðferð veiðiréttar og ráðstöfun veiði gera það að verkum að rétt þykir að bregðast við þessu.

Frumvarpið byggir að þessu leyti að nokkru á þingmannafrumvarpi sem hv. þm. Haraldur Benediktsson flutti ásamt fleirum. Þar er rakið að minnihlutaréttindi eru best vernduð í hlutafélagalöggjöf en ýmis virkni er í henni til að gæta slíkra réttinda. Að baki hvílir sú hugsun að jafnvel þótt eðlilegt sé að fjárhagsleg ábyrgð og ákvarðanataka fari saman geti verið rétt að veita minni hluta tiltekna vernd með ófrávíkjanlegum fyrirmælum svo að gætt sé jafnvægis hagsmuna. Með líkum hætti og var í téðu þingmannafrumvarpi þykir hæfilegt að hámark atkvæða sem sami aðili eða tengdir aðilar geti farið með á félagsfundi í krafti eignarhalds á eigin hendi eða tengdra aðila verði mest 30%. Með því er höfð hliðsjón af því að atkvæði tveggja þriðju hluta allra atkvæðisbærra félagsmanna þarf til þess að samþykktir séu löglega gerðar eða þeim breytt. Getur því enginn einn aðili staðið í vegi fyrir slíkum breytingum óstuddur. Um framkvæmd greinarinnar er fjallað nánar í skýringu við 1. gr. frumvarpsins og vísa ég nánar til þess sem þar segir um framkvæmd hennar.

Það næsta sem ég vil víkja að eru þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu á skipan arðskrárnefndar. Fyrst nokkur orð um arðskrármatið sjálft. Með 41. gr. laga um lax- og silungsveiði er mælt fyrir um þá þætti sem ráða skulu skiptingu arðs milli félagsmanna í veiðifélagi. Það er í fyrsta lagi aðstaða til netaveiði og stangveiði, í öðru lagi landlengd að veiðivatni, vatnsmagn og stærð vatnsbotns og í þriðja lagi hrygningar- og uppeldisskilyrði. Sé ágreiningur um hvernig skipta skuli arði á grundvelli þessara sjónarmiða er hann borinn undir sérstaka arðskrárnefnd sem starfar samkvæmt 44. gr. laganna.

Árið 2015 var skipaður starfshópur af forvera mínum til að fara yfir störf arðskrárnefndar. Auk starfsmanns ráðuneytisins áttu sæti í þessum hópi fulltrúar Veiðimálastofnunar og Landssambands veiðifélaga. Það vakti athygli að starfshópurinn áleit að vægi veiði/veiðiaðstöðu hefði aukist úr 41,3% í 49,0% frá árunum 1996–2005 miðað við árin 2009–2015 með fyrirvara um að mat væri hverju sinni heildstætt og byggði á séreiginleikum hvers veiðivatns. Að sama skapi hefði vægi bakkalengdar, búsvæða og annarra matsþátta minnkað. Breytingin væri þó mögulega minni væri horft eingöngu til sjálfbærra laxveiðiáa. Þá var talið að kostnaður við matsgerðir væri hár og hefði farið hækkandi og ástæða væri til að fara nánar yfir verklag arðskrárnefndarinnar með það að markmiði að lækka kostnað. Nánar er fjallað um þetta í greinargerð með frumvarpinu og ég hvet þingmenn til að kynna sér hana og þær skýringar sem þessu fylgja í frumvarpinu.

Í lok greinargerðar starfshópsins var vikið að skipan arðskrárnefndar. Þar sagði að athygli vekti að engar kröfur væru gerðar til fiskifræðilegrar þekkingar eða reynslu matsmanna enda þótt verulegur hluti matsins varði það fræðasvið. Því mætti einnig velta upp hvort rétt væri að landeigendur tilnefndu fulltrúa í nefndina og væri rétt að yfirfara kröfur um sérþekkingu matsmanna. Með frumvarpi þessu er brugðist við þeirri áskorun þannig að lagt er til að felld verði brott fyrirmæli um að tveir af þremur fulltrúum skuli uppfylla almenn hæfisskilyrði héraðsdómara. Með því er horft til þess að hægara verði að skipa fulltrúa til setu í nefndinni sem hafi sérþekkingu eða reynslu á veiðimálum eða líffræði vatnafiska. Lagt er til að einn fulltrúi verði skipaður samkvæmt ábendingu Hafrannsóknastofnunar en annar án tilnefningar og verði hann formaður. Vegna eindreginnar óskar stjórnar Landssambands veiðifélaga þykir ekki rétt að leggja til að felldur verði niður réttur sambandsins til tilnefningar í nefndina.

Að lokum vil ég nefna að með frumvarpinu er gerð tillaga um breytingu á 47. gr. laganna þar sem mælt er fyrir um að ríkið skuli kosta starf arðskrárnefndar og ákveða tímakaup nefndarmanna, en á móti skuli veiðifélög að jafnaði, eins og þar segir, greiða kostnað af mati í ríkissjóð. Með þessu er gert ráð fyrir að ráðuneytið leggi út fyrir reikningum matsnefndar eða fulltrúa í henni og endurkrefji síðan veiðifélög um greiðsluna, án þess að eiga nokkra aðra aðkomu að störfum nefndarinnar. Þetta fyrirkomulag hefur verið við lýði síðan árið 2006 og lagt er til að það verði aflagt enda verður ekki álitið að þörf sé á því að hið opinbera hafi þessa milligöngu með höndum sem frekar getur orðið til þess að ýta upp kostnaði við arðskrármat. Þó þykir rétt að ráðherra njóti áfram heimildar til að ákveða tímagjald matsmanna og starfsmanns nefndarinnar.

Virðulegi forseti. Ég vil að öðru leyti vísa til þeirra athugasemda sem fylgja frumvarpinu en þar er ítarlega fjallað um og gerð grein fyrir efni þess. Ég vil við lok máls míns hvetja hv. atvinnuveganefnd til að fara sem fyrr gaumgæfilega yfir efnisatriði frumvarpsins, sérstaklega varðandi þann hluta þess sem snýr að því að styrkja minnihlutavernd í veiðifélögum. Þeim þætti frumvarpsins var bætt við eftir að málið hafði verið kynnt í samráðsgátt stjórnvalda. Á sama tíma og ég hef skynjað mikinn stuðning við það meginmarkmið að styrkja minnihlutavernd í veiðifélögum veit ég að í þeim efnum eru margar færar leiðir, allar með sínum kostum og göllum. Ég vil því sérstaklega hvetja nefndina til þess að taka vel og rækilega til skoðunar þær ábendingar og tillögur sem munu væntanlega koma fram í umsagnarferli sem snúa að þessum þætti málsins og taka þær til gaumgæfilegrar athugunar.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. atvinnuveganefndar.