150. löggjafarþing — 25. fundur,  24. okt. 2019.

lax- og silungsveiði.

251. mál
[11:38]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, ég veit ekki til þess að mat hafi verið lagt á það hvað þetta snertir mörg veiðifélög. Þetta er almenn áhersla sem þarna er sett fram um að við teljum fulla ástæðu til að reyna að styrkja vernd minni hluta í veiðifélögum, þótt ekki væri nema bara fyrir þá þróun sem hefur orðið á síðustu árum varðandi samsetningu þeirra. Frumvarpið er vilji í þá veru að styrkja minni hlutann í þeim félögum sem þarna heyra undir en það er ekkert mat á fjölda þeirra sem þetta getur tekið til.

Nei, það komu ekki miklar athugasemdir við frumvarpið þegar það var í samráðsgátt, sárafáar og ekki miklar að efni til, enda held ég að mjög mikil sátt sé um þær breytingar sem þar eru lagðar fram um arðskrárnefndina og sérstaklega sem snýr að kostnaðarþættinum og útleggingu ríkisins á kostnaði fyrir veiðifélög.