150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

framlög til fatlaðra og öryrkja.

[15:33]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég hvet hv. þingmann til að koma í lið með okkur sem viljum gera breytingar á kerfinu, einfalda það, draga úr þeim skerðingum sem eru innan kerfisins, einfalda bótaflokkana, samhliða því sem við bætum kjör þessa hóps. Ég ítreka aftur að það er grundvallaratriði að bæta kjör hópsins en samhliða því verðum við að ráðast í ákveðnar kerfisbreytingar. Um það voru teiknaðar ákveðnar útlínur af nefnd sem starfaði hér síðasta vor. Á þessu löggjafarþingi er ætlunin að koma fram með lagabreytingar til að styðja við þá vinnu og samhliða því að bæta kjör hópsins. Miðað við það sem unnið hefur verið fyrir ríkisstjórnina, m.a. af KPMG, hefur verið sýnt fram á að nýgengi örorku mun valda því að upphæðirnar sem renna til þessa málaflokks verða gríðarlega háar. Það gerir okkur erfitt fyrir að bæta kjörin á sama tíma. Þess vegna verðum við að fara saman í að draga úr nýgengi örorku samhliða því sem við bætum kjör þessa hóps. (Forseti hringir.) Það er á verkefnalista ríkisstjórnarinnar. Við höfum stigið ákveðin skref til afnáms skerðingar og ætlum okkur að stíga frekari og stærri skref í þeim efnum.