150. löggjafarþing — 26. fundur,  4. nóv. 2019.

þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

317. mál
[17:02]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður spyr um tímatakmarkanir. Almenna reglan hefur verið sú ef við horfum til Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, að þar hafa verið lagðar línur um mikilvægi þess að hafa ákveðið hámark á nýtingartíma sem hv. þingmaður spyrst hér fyrir um. Það er mjög mismunandi milli auðlinda en hámarkið tengist ákveðnum hlutföllum milli nýtingar og arðsins sem nýtingin gefur. 12 mánaða markið sem var í lögum, þ.e. að ráðuneytið þyrfti ekki að veita leyfi stæði nýtingin skemur en 12 mánuði, er hins vegar fellt út þannig að nú þarf að sækja um leyfi þó að nýtingin standi skemur en eitt ár, sem er hið gamla fyrirkomulag. Við teljum okkur vera að setja skýrari lagaramma með þessu.