150. löggjafarþing — 27. fundur,  5. nóv. 2019.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[16:57]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nei, eins og fram kom í minni framsögu tel ég það ekki liggja fyrir hver lausnin sé nákvæmlega á því máli. Hér var tekin sú ákvörðun að kveða ekki á um stærð neysluskammta í frumvarpinu heldur vísa til þess að notanda sé heimilt að hafa í vörslu sinni það magn ávana- og fíkniefna sem hann ætlar að neyta, eins og segir í frumvarpinu. Það felur í sér þann breytileika sem hv. þingmaður nefnir. En af því að hv. þm. Þórhildur Sunna Ævarsdóttir nefndi að möguleiki væri á því að lögreglan biði fyrir utan neyslurýmin, þá er gert ráð fyrir í frumvarpinu að það verði líka refsilaust að neyta efnanna í nánasta umhverfi neyslurýmanna þannig að það ætti ekki að vera áhyggjuefni.