150. löggjafarþing — 28. fundur,  6. nóv. 2019.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[16:27]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Umræðan hefur verið um margt áhugaverð. Hvað varðar tengsl samgöngusáttmálans og samgönguáætlunar liggur fyrir að eðli málsins samkvæmt þarf ríkið að standa við sitt varðandi fjármögnunina. Í ljósi þess hringlandaháttar sem óneitanlega hefur átt sér stað með fjármögnunarleiðir og forgangsröðun verkefna í tíð þessarar ríkisstjórnar væri svo sem full ástæða til að hafa áhyggjur af því máli en ég ætla að vera bjartsýn og trúa því að þetta gangi upp. Það sem skiptir höfuðmáli er jafnræðið, eins og komið hefur fram í máli ýmissa, og sú umræða mun án efa og með réttu fá byr undir báða vængi á ný þegar kemur að umræðu um nýja samgönguáætlun í þingsal og í þinglegri meðferð. Þeirrar umræðu er að vænta á næstu vikum.

Í öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu styður Viðreisn samgöngusáttmálann. Sá stuðningur er til kominn vegna áherslna okkar á umhverfismál, þar með talið svokallaðar grænar samgöngur, og vegna áherslna okkar á frelsi. Með því að byggja upp mismunandi samgöngur með áherslu á almenningssamgöngur samhliða hjóla- og göngustígum til viðbótar við bílasamgöngur er einfaldlega verið að gefa fólki raunverulegt frelsi til að velja eigin samgöngumáta. Raunverulegt frelsi í samgöngum felst ekki í því að allir eigi að keyra um á einkabílum og leggja bara fjármagn í það. Þvert á móti er það forsjárhyggja sem við eigum að segja skilið við. Við erum að gera það með þessum samgöngusáttmála og það er vel.

Svo langar mig að lokum að nota tækifærið og hrósa samstöðu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í þessum málum. Þau hafa gengið á undan með góðu fordæmi varðandi áherslur á græna samgöngumáta. Ríkið er nú komið um borð og því ber að fagna. Einstaka afneitunarsinnar og forsjárhyggjumenn sitja eftir, sem betur fer í miklum minni hluta, jafnvel í sínum eigin flokki, svo ég taki dæmi af borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins sem greiddi atkvæði gegn þessum sáttmála í Reykjavík, þvert á afgreiðslu hans í þeim sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem Sjálfstæðismenn ráða för. En sem betur fer er málið nú (Forseti hringir.) komið í þessa höfn og ég hlakka til að fylgjast með framhaldinu.