150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

störf þingsins.

[13:34]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Landsdómur dæmdi skerðingar í tvo mánuði, í janúar og febrúar 2017, ólöglegar og ríkið varð að endurgreiða 5,4 milljarða. Sá misskilningur hefur verið uppi að það hafi að mestu leyti gengið til þeirra sem eru efnamestir. Þeir efnamestu eru ekki hjá Tryggingastofnun ríkisins. Það fer enginn á bætur hjá Tryggingastofnun ríkisins sem er með yfir 575.000 kr. úr lífeyrissjóði á mánuði en þeir sem eftir sitja eru aðallega öryrkjar. Við verðum að átta okkur á því að þarna var um 29.000 ellilífeyrisþega að ræða og að meðaltali er verið að skerða um 95.000 kr. í hverjum einasta mánuði úr lífeyrissjóði. En öryrkjarnir fengu ekkert út úr þessu. Öryrki á strípuðum bótum, 214.000 kr. á mánuði, fær 50.000 kr. úr lífeyrissjóði — hverju skilar það honum? Það er 80% skattur og skerðingar. Það skilar honum 10.000 kr., einum fimmta. Það sama gildir þegar komið er í 100.000 kr. Það er verið að skerða lífeyrisþega algerlega í kerfinu. En það gleymist í þessu samhengi að þegar króna á móti krónu skerðing var tekin út hjá ellilífeyrisþegum var því breytt í 65 aura á móti krónu hjá örorkulífeyrisþegum. Hverju skilaði það? Jú, það skilaði endurgreiðslu í átta mánuði, eingreiðslu sem gerði að verkum að sérstaka uppbótin var skert og húsaleigubætur. Fólk var komið í mínus. Það er stanslaust verið að rétta fólki smáaura með vinstri hendinni en rífa hærri upphæð af því með hægri. Það er verið að ætla ellilífeyrisþegum að lifa á 212.902 kr. og öryrkjum á 214.519 kr. útborguðum. Ég segi fyrir mitt leyti: Hver treystir sér til að lifa með sóma á svona smánarbótum?