150. löggjafarþing — 30. fundur,  12. nóv. 2019.

fjárlög 2020.

1. mál
[21:49]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum hér fjárlög í 2. umr. Nú er ég nýkomin inn í fjárlaganefnd þannig að mig langar að byrja á að segja að að þetta er áhugaverð umræða um fjárlagavinnuna eina og sér svo ég tali aðeins um umgjörðina til að byrja með. Ég held að við séum enn að læra á það hvernig við eigum að vinna innan rammans sem lögin um opinber fjármál setja okkur. Við erum bara nýfarin að sjá hvernig við förum í gegnum þetta kerfi frá byrjun til enda með ríkisstjórn og ég held að þess vegna sé alveg eðlilegt að við séum enn að stilla okkur af með það hvernig við förum í gegnum þessa vinnu.

Ég tel mjög mikilvægt að halda starfinu áfram eins og það hefur verið í fjárlaganefnd og að hitta gesti. Það er mjög mikilvægt að umsagnaraðilar geti komið sjónarmiðum sínum á framfæri við fjárlaganefnd. Skilningur okkar sem á þingi sitjum dýpkar við að heyra sjónarmið fólks sem kemur á fund nefndarinnar og fylgir umsögnum sínum eftir. Ég held hins vegar að það vanti að halda síðan áfram ákveðnu samtali í nefndinni við hæstv. ríkisstjórn um þau mál því að ríkisstjórnin fær ekki þessa sömu gesti á sinn fund. Það er kannski nokkuð sem mætti hugsa um í störfum þingsins, hvernig væri hægt að bæta því samtali inn við gerð fjárlagafrumvarpsins. Ég held að það gæti orðið til bóta, líka vegna þess að hagspá kemur hingað, eins og núna, sem var gefin út í nóvember sl., og þar erum við að taka á atriðum við 2. umr. fjárlaga sem þarf að taka tillit til. Það væri mjög gagnlegt fyrir fjárlaganefnd einmitt að taka þá aftur samtal við ráðuneyti og ráðherra um það hvernig eigi að stilla saman nýjustu upplýsingum við þær aðgerðir sem er verið að fara í með fjárlögunum.

Í þessu er fólgin pólitík líka, kannski ekki sú pólitík sem snýst um það nákvæmlega í hvað peningarnir fara heldur einmitt að hægt sé að bregðast betur við þeim umsögnum sem berast og hlusta þannig betur á þau sjónarmið sem koma fram. Ég hef heyrt ýmsa hv. þingmenn tala um þetta en hér skiptast þingmenn ekki í einhvers konar lið eftir því hvort þeir eiga sæti í stjórn eða stjórnarandstöðu, heldur eru menn einmitt frekar að ræða og hugsa um hvernig sé hægt að gera fjárlagavinnuna enn betri. Mér finnst jákvætt að hv. þingmenn velti upp ýmsum sjónarmiðum og leyfi sér hreinlega að hugsa pínulítið upphátt um hvernig við getum gert umgjörðina um fjárlagavinnuna enn betri. Ég tel þó inntakið skipta langmestu máli þegar upp er staðið, að það skipti mestu fyrir samfélagið. Ég held að almenningi sé kannski ekki svo umhugað um vinnuferla á þingi, en þetta skiptir samt máli því að í þessu held ég að einnig sé fólgið meira gagnsæi og að samtalið verði dýpra um hvað við erum að gera á þinginu. Nú ætla ég ekki að tala meira um þessa umgjörð heldur snúa mér að umræðuefninu sem er frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2020.

Hv. þm. Willum Þór Þórsson gerði fyrr í dag grein fyrir nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar og ég ætla ekki að endurtaka allt það sem hv. þingmaður sagði þar, enda gerði hann grein fyrir bæði nefndarálitinu og helstu breytingum sem eru lagðar til á milli umræðna. Ég ætla frekar að nota tíma minn til að ég stikla á stóru.

Mig langar að byrja á að nefna að hæstv. ríkisstjórn hefur farið aðra leið en margar ríkisstjórnir hafa hingað til gert. Hún réðst strax í að framkvæma mörg af stærstu loforðunum sínum og byrjaði með því að auka útgjöld til hinna ýmsu málaflokka og hefur verið að gera það frá árinu 2017. Ég held að þetta hafi verið mikilvægt því að aukið fjármagn vantaði inn í gríðarlega mörg mál sem ég kem kannski nánar að á eftir. Ég held að það sé mikilvægt að við gerðum það strax í upphafi, þegar þjóðarbúið stóð mjög vel. Fyrr á þessu ári dundu áföll á íslenskum atvinnuvegi. WOW air varð gjaldþrota og kyrrsetning á flugvélum og svo veiddist engin loðna. Það er stærð sem skiptir gríðarlega miklu máli í íslensku efnahagslífi og hefur alltaf gert. Þó að við séum ekki jafn háð sjávarútveginum og því hvernig fiskast er þetta auðvitað risastórt mál í okkar efnahagsstærðum og verður það til framtíðar.

Í febrúar spáði greiningardeild Landsbankans því að loðnubresturinn myndi hafa áhrif á hagvöxt sem næmi 0,6 prósentustigum þannig að það eitt og sér telur talsvert. Það gaf því duglega á bátinn en ríkisstjórnin brást við með því að slaka á aðhaldi ríkisfjármála sem að mínu mati eru hárrétt viðbrögð í því efnahagsástandi sem við erum í núna. Mér heyrist raunar að flestir þeir sem hér hafa tekið til máls í umræðunni séu sammála um það og hafa ekki talað fyrir því að ríkissjóður ætti að fara í einhvern stórfelldan niðurskurð heldur sé þetta einmitt rétta leiðin, þ.e. að leyfa ríkissjóði að fara núna í halla um stundarsakir. Ég tel að það sé einmitt mjög mikilvægt að almenningur þurfi ekki að gjalda þess með skertri þjónustu þó að það gefi svolítið á bátinn. Við höfum vel ráð á því að láta afganginn gefa eftir og fara í gegnum þessa niðursveiflu án þess að skerða þjónustu. Þetta tel ég þjóðhagslega skynsamlegt að gera og að þetta sé betra fyrir samfélagið.

Í vor voru talsvert háværar raddir um að hér færi allt mjög illa, að hér yrði hefðbundið ofris og að allt væri að fara úr böndunum. Núna virðist hins vegar vera að koma í ljós að Íslendingar séu að upplifa niðursveiflu þar sem peningastjórnin getur virkað eins og hún á að virka, en yfirleitt þegar komið hefur ofris í hagkerfið, verðbólguskot og gengisfall í kjölfarið hefur Seðlabankinn þurft að hækka stýrivexti. Nú hafa stýrivextir hins vegar lækkað og það mun draga úr fjármagnskostnaði fyrirtækja og einstaklinga og glæða eftirspurnina og verða þannig til þess að koma hjólum atvinnulífsins aftur af stað. Það hægði vissulega á vexti í ferðaþjónustu sem blasti við að myndi gerast einhvern tímann, auk þeirra ytri aðstæðna sem ég rakti hér áðan sem var hvorki hægt að koma í veg fyrir né spá fyrir um.

Stoðirnar sem íslenskt efnahagskerfi stendur á eru traustar. Fyrir rúmum tíu árum var íslenska hagkerfið mjög skuldsett. Við höfðum sett einhvers konar met í viðskiptahalla og raunar hafði Ísland verið með viðskiptahalla áratugum saman en það er ekki þannig núna. Við eigum meira fé erlendis en við skuldum. Ríkissjóður skuldar lítið og fékk fyrr á þessu ári hagstæðustu vexti nokkru sinni sem er staðreynd sem birtist í því að um daginn var lánshæfismat Íslands hækkað af matsfyrirtækinu Moody's. Niðurstaða fyrirtækisins var m.a. að sú styrka umgjörð opinberra fjármála gerði það að verkum að hagkerfið þyldi betur áföll. Auðvitað skiptir þetta máli því að eins og við öll vitum sveiflast hagkerfin til, hagsveiflan fer upp og niður og það er mikilvægt að geta brugðist við þegar sveiflan fer niður eins og núna. Svo skipta líka máli aðgerðir stjórnvalda í tengslum við lífskjarasamningana sem voru gerðir í vor, en þeir fela í sér umfang upp á rúma 70 milljarða á næstu árum.

Verið er að fjölga skattþrepum sem ég tel mjög gott en á sama tíma er verið að lækka skatta á þá tekjulægstu þannig að hér næst það fram að fjölga skattþrepum þannig að það er meiri munur á því hvað ólíkir tekjuhópar borga til skattkerfisins. Það er núna í þremur skattþrepum, það á sem sagt um leið að lækka skattana á þá lægst launuðu. Ég tel því að hér sé um að ræða aðgerðir sem skipta miklu máli. Á sama tíma er verið að hækka barna- og húsnæðisbætur og lengja fæðingarorlofið og jafnframt eru viðamiklar fjárfestingar í samgöngumálum. Aðgerðir stjórnvalda samanlagt eru að auka ráðstöfunartekjur heimilanna og munu koma til með að auka hagvöxt á næstu árum. Seðlabankinn metur þessar aðgerðir sem 0,5 prósentustiga framlag til hagvaxtar og 2% til vaxtar einkaneyslu á næstu árum.

Mig langar að tala sérstaklega um lengingu fæðingarorlofs, en eitt af stærstu málum þessarar ríkisstjórnar hefur verið að lengja fæðingarorlofið. Fyrri áfanginn af tveimur er stiginn í þessum fjárlögum með því að leggja fjármagn í að lengja fæðingarorlof í tíu mánuði. Það að lengja fæðingarorlof og gera um leið öðrum kleift að verja lengri tíma heima með börnunum sínum er mikilvægt jafnréttis- og kjaramál. Það er jafnréttismál vegna þess að margoft hefur verið sýnt fram á að ef feður taka lengra fæðingarorlof hefur það áhrif til að minnka kynbundinn launamun. Það er ekki bara það að feður geti eytt meiri tíma með börnunum sínum, sem er auðvitað gott út af fyrir sig, heldur er þetta einnig til þess að minnka kynbundna launamuninn sem hefur verið allt of mikill og er alveg óþolandi.

Þetta er líka gríðarlega mikilvægt kjaramál og hefur verið bent á það að ein besta aðgerðin sem stjórnvöld geta ráðist í til að draga úr líkum á fátækt barna sé að brúa umönnunarbilið milli fæðingarorlofs og leikskóla. Það styður atvinnuþátttöku kvenna til lengri tíma og eykur einnig lífskjör fjölskyldunnar.

Í tillögum meiri hlutans er lagt til að auka við það fjármagn sem fer í Fæðingarorlofssjóð vegna þess að fjölskyldur virðast í auknum mæli vera að nýta sér fæðingarorlofið, auk þess sem fæðingum er einfaldlega að fjölga sem eru mjög gleðileg tíðindi. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs fæddust hlutfallslega fleiri börn en frá árinu 2010. Ég ætla bara að leyfa mér að vona að þau verði langt umfram forsendur á næsta ári þó að við séum að auka hér í og að við þurfum jafnvel að setja enn meiri fjármuni inn með fjáraukalögum árið 2020. Þó að maður vilji kannski ekki tala um það almennt að maður voni að eitthvað komi til með að lenda á fjáraukalögum held ég að þetta yrði mjög jákvætt fyrir íslenskt samfélag.

Á síðasta ári skilaði sérfræðingahópur af sér skýrslu um endurskoðun tekjuskatts og bótakerfa en þar er að finna viðamikla umfjöllun um þróun skattheimtunnar síðustu áratugi. Ein af þeim 45 aðgerðum sem ríkisstjórnin skrifaði upp á við aðila vinnumarkaðarins í vor var sú breyting á skattkerfinu að taka upp þriggja þrepa skattkerfi að norrænni fyrirmynd sem ég fjallaði um áðan að ég teldi mjög mikilvægt og gott skref. Sú vinna byggði á vinnu sérfræðinganna þannig að tryggt var að breytingarnar kæmu sér best fyrir tekjulægstu hópana. Það er gríðarlega mikilvægt því að það eykur jöfnuð í samfélaginu.

Breytingarnar fela einkum tvennt í sér, lækkun á skattbyrði og lægri jaðarskatta á lág laun, og fyrri áfanginn af tveimur er tekinn í þessum fjárlögum. Þessar breytingar eru til viðbótar við þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á undanförnum árum, til að mynda hækkun á fjármagnstekjuskatti í fyrstu fjárlögum þessarar ríkisstjórnar. Breytingin á fjármagnstekjuskatti kann að hafa haft áhrif á það að hlutdeild efstu tekjutíunda í heildareignum landsmanna hefur dregist saman á milli áranna. Hér er sem sagt jöfnuður að aukast. Þá var persónuafsláttur hækkaður umfram verðbólgu á síðustu fjárlögum. Barnabætur hafa hækkað og þannig búið um að þær skili sér mest til tekjulágra og að lokum hlýt ég að minna á þá mikilvægu breytingu sem varð um síðustu áramót að efsta skattþrepið fylgir nú sömu vísitölu og neðri skattþrepin. Þetta kemur í veg fyrir gliðnun í skattheimtu milli tekjuhærri og tekjulægri hluta samfélagsins og er því réttlætismál sem skiptir verulegu máli.

Þegar skattkerfisbreytingarnar verða að fullu komnar fram munu þær skila rúmlega 10.000 kr. meira á mánuði í vasa þeirra sem hafa lægstu launin. Það munar um það. Barnabætur hafa einnig hækkað á milli ára. Um 1 milljarður kr. fer til þess að hækka skerðingarmörk. Það þýðir að fyrir einstætt foreldri eru engar skerðingar á barnabótum upp að 338.000 kr. á mánuði og þær barnabætur sem einstætt foreldri fær á ári hækka. Þetta skiptir líka máli því að með þessu er verið að hækka ráðstöfunartekjur þeirra sem hafa lægstu launin og lægstu fjárhæðirnar til að framfleyta sér á. Það skapar réttlátara samfélag.

Opinber fjárfesting eykst á milli ára og stefnt er að því að hún verði 3,8% árið 2020 en þó vantar upp á að við náum sama stigi og árin fyrir hrun. Greiningaraðilum ber þó ekki alveg saman um þetta. Í nýjasta hefti Peningamála Seðlabankans kemur fram að hann telji opinbera fjárfestingu vera komna á sama stig og fyrir hrun en hvort sem er held ég að alveg örugglega sé hægt að segja að við séum á réttri leið. Framlög til örorkumála hafa hækkað um 13 milljarða frá árinu 2017. Ég vil þó segja að þar er enn verk að vinna og mikilvægt að fara í þær kerfisbreytingar sem talað hefur verið um. Það er ekki lítið sem við höfum talað um hversu flókið og ógagnsætt kerfið er orðið og ýmsar skerðingar þar og í rauninni erfitt að sjá hvernig hækkun á tilteknum liðum muni skila sér í gegnum kerfið til þeirra sem nota almannatryggingakerfið sér til framfærslu.

Hæstv. velferðarráðherra hefur boðað að von sé á frumvarpi á vormánuðum en markmiðið með breytingunum er í stórum dráttum tvenns konar, að tryggja þeim sem ekki geta unnið örugga og næga framfærslu ásamt því að hvetja og styðja út á vinnumarkaðinn þá sem geta unnið. Stórefla þarf endurhæfingu og það er jákvætt sem kom fram á ráðstefnu sem Tryggingastofnun hélt í morgun, að aukin áhersla hefur verið lögð á að efla endurhæfingu. Það kemur svo sannarlega samfélaginu öllu til góða að gera það en á sama tíma þarf að halda því til haga, þegar við tölum um að auka endurhæfingu og fá fleira fólk út á vinnumarkaðinn, að þar er ábyrgð atvinnulífsins líka mikil á því að ráða til vinnu fólk með skerta starfsgetu.

Mér finnst mikilvægt, og vil ítreka það sem kom fram í máli hv. þm. Willums Þórs Þórssonar fyrr í dag, að við afgreiðslu fjáraukans verður lagt til að greidd verði eingreiðsla ofan á desemberuppbót á árinu 2019 sem nemur 10.000 kr. og þannig búið um hnútana að hún muni ekki skerða aðrar bætur. Þetta er jákvætt og ég held að það verði mjög mikilvægt.

Talsvert hefur verið talað um að tafir hafi orðið á byggingu Landspítalans sem geri það að verkum að ekki er þörf á öllum þeim fjárheimildum sem voru ætlaðar í byggingu Landspítalans á næsta ári. Þess vegna er skynsamlegt að draga úr því fjármagni sem var sett inn á þann lið og láta þá peninga vera í virkni annars staðar í kerfinu á meðan, en ekki að ráðstafa svona háum fjárhæðum í eitthvað sem er vitað að hliðrist til vegna þess að framkvæmdir hefjast síðar. Það er ekki vegna þess að stjórnvöld hafi tekið ákvörðun um að fara í aðgerðir síðar, heldur er þetta mat frá byggingarnefnd Landspítalans um að þar á verði tafir.

Framlög til heilbrigðismála hafa stóraukist á undanförnum árum. Þar undir eru stóru sjúkrahúsin okkar, og Landspítalinn er þar langstærstur. Mér hefur fundist gæta ákveðins misskilnings þegar talað er um það eins og eitthvert vandamál að útgjöld til heilbrigðismála aukist mikið. Stundum má heyra slíkar raddir þó að ég telji að við flest hér inni séum sammála um að þetta sé verulega jákvætt. Það er erfitt að bera saman krónutölur í dag og fyrir nokkrum árum, en séu þær uppreiknaðar miðað við neysluvísitölu gefur það bjagaða mynd. Gæta þarf að breytingum á gæðum þjónustunnar, þ.e. að gæðin aukist, auk þess sem þjónustan sem við þurfum í dag er öðruvísi samsett en hún var fyrir nokkrum árum. Öldrun þjóðarinnar skiptir þar máli en þeim sem eru eldri en 67 ára hefur fjölgað og þeim er að fjölga og taka þarf mið af því þegar við tölum um útgjöld til heilbrigðismála. Verið er að gera það og það er gott.

Mikilvægt er að halda áfram að bæta mönnunar- og útskriftarvanda Landspítalans. Það er verið að stíga mjög mikilvæg skref í þá átt. Lagt er til milli umræðna að setja 600 millj. kr. í það frá þeirri upphæð sem er tilgreind í fjárlagafrumvarpinu að bæta mönnun í heilbrigðiskerfinu. Á höfuðborgarsvæðinu hefur verið skortur á hjúkrunarfræðingum og úti á landi hefur verið skortur á læknum. Þá er einnig lagt til að á milli umræðna verði settir auknir fjármunir í það að auðvelda erlendu heilbrigðisstarfsfólki að fá menntun sína metna hér á landi. Það verður til þess að styrkja mönnun í heilbrigðiskerfinu hér á landi en mun einnig auðvelda innflytjendum að fá störf við hæfi. Þá er einnig lagt til milli umræðna að verja 150 millj. kr. til að styrkja sjúkraflutninga úti um land og jafna þar með aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð búsetu þannig að þar er verið að gefa enn frekar í með markvissri aðgerð sem kemur til með að skipta máli.

Mig langar að ræða aðeins um loftslags- og umhverfismál áður en ég segi skilið við þessa ræðu. Ungt fólk hefur leitt þá vakningu með Gretu Thunberg í fararbroddi. Hún hefur ekki gert annað en að segja satt og rétt frá niðurstöðum vísindamanna. Stjórnvöld hafa tekið loftslagsmálin föstum tökum með því að hrinda aðgerðaáætlun í loftslagsmálum í framkvæmd. Hún snýst um tvo meginása, annars vegar áætlun um kolefnisbindingu með aukinni skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis. Hér verður fjölþættum markmiðum náð með því að draga úr losun frá landi með landgræðslu og að stöðva losun frá framræstum mýrum sem ekki eru nýttar til landbúnaðar og með því að binda kolefni í trjám og rótum með skógrækt.

Það hefur aðeins verið talað um framlög til skógræktarinnar í þessari umræðu og mig langar að halda því til haga að í fjárlagafrumvarpinu er lögð áhersla á skógrækt á lögbýlum en í tillögum frá meiri hluta fjárlaganefndar er einnig gert ráð fyrir að bæta 28 millj. kr. framlagi við til að styrkja rannsóknasvið Skógræktarinnar. Það er ákaflega mikilvægt verkefni sem er grunnur að því að hægt sé að telja fram bindingu skóga og skógræktar til loftslagsmála. Svo skiptir máli í loftslags- og umhverfismálunum að ræða orkuskipti í samgöngum. Verið er að fjölga hraðhleðslustöðvum um allt land þannig að rafmagnsbílar verði valkostur fyrir alla landsmenn.

Þá fara um 800 millj. kr. í að undirbúa borgarlínu, sem er auðvitað gríðarlega stórt umhverfis-, lífsgæða- og lífskjaramál. Verið er að taka upp fleiri græna skatta enda eiga þeir sem menga að borga. Ég held að það verði ekkert umflúið þannig að grænir hvatar og grænir skattar munu aukast í framtíðinni. Öðruvísi munum við ekki geta tekist á við loftslagsmálin. Þar er auðvitað mikilvægt að hlusta á það sem sérfræðingar segja, eins og Greta Thunberg hefur margoft bent á, en á sama tíma þurfum við líka að byrja aðgerðir. Með urðunarskatti er hvatt til endurvinnslu og tækifæri munu skapast í nýsköpun til að búa til verðmæti úr úrgangi. Upptöku skattsins er frestað en ég tel mjög mikilvægt að henni verði ekki frestað lengi og ég vonast til þess og geri ráð fyrir að skatturinn verði kominn í fullan gang um mitt næsta ár. Hins vegar er komið til móts við sveitarfélögin sem telja sig þurfa aðeins lengri aðlögunarfrest og það er sjálfsagt að verða við því en á sama tíma er mjög mikilvægt að stjórnvöld haldi markvisst áfram því að þetta er gríðarlega mikilvæg aðgerð í loftslagsmálum. Í fjárlagafrumvarpi er einnig talað um hröðun við útfösun á f-gösum sem eru notuð í kælikerfi í iðnaði og flýta fyrir loftslagsbreytingum. Það eru því mjög mikilvæg mál í þessu fjárlagafrumvarpi.

Herra forseti. Af því að tími minn er að renna út langar mig rétt í lokin að koma aðeins inn á alþjóðlega þróunarsamvinnu. Þar er mikilvæg breytingartillaga sem er partur af tillögum meiri hlutans þar sem verið er að bæta við 300 millj. kr. framlagi í samræmi við það sem var ákveðið við afgreiðslu fjármálaáætlunar. Það kemur ofan á þau framlög sem eru til þróunarsamvinnu í fjárlagafrumvarpinu og gera það að verkum að við erum á plani með það hvernig þessi ríkisstjórn ákveður með ákvæði í stjórnarsáttmála sínum að hækka í skrefum framlög til þróunarsamvinnu af vergri landsframleiðslu. Það er mikilvægt og mikið fagnaðarefni að þeir peningar sem voru fluttir milli útgjaldaliða við afgreiðslu fjármálaáætlunar komi hér verði þessi tillaga, sem ég trúi ekki öðru en að verði samþykkt, aftur komin inn á liðinn þróunarsamvinna.

Herra forseti. Að lokum tel ég að með því fjárlagafrumvarpi sem hér liggur fyrir og með þeim tillögum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. sé af skynsemi komið inn á þann stað sem við erum stödd í hagsveiflunni akkúrat núna. Ég tel að það verði í íslensku samfélagi til góðs.