150. löggjafarþing — 34. fundur,  25. nóv. 2019.

orð fjármálaráðherra í óundirbúnum fyrirspurnum.

[16:03]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Áðan var talað um að það ætti að ávíta þingmenn fyrir það að saka fjármálaráðherra um brot á lögum um opinber fjármál þannig að ég geri það bara hér með aftur og athuga hvort forseti segir eitthvað við því. Það er alveg skýrt í lögum um opinber fjármál varðandi 2019 að ef verið er að tala um að það eigi að vera uppsafnaðar heimildir (Fjmrh.: Fundarstjórn!) einhvers staðar á reikningum (Gripið fram í.) ríkisstjórnarinnar og að það eigi að nota varasjóði á sama tíma — það passar ekki saman. Við erum að tala um 2020 líka þar sem er verið að segja að það eigi að nýta þær 200 milljónir sem komu inn í fjármálaáætlun til að fara í þessar rannsóknir en þær 200 milljónir voru settar sérstaklega inn til að ná betri hagkvæmni í innheimtu skatta. Á þá að hætta því og setja þetta þangað í staðinn? Það passar ekki alveg saman.

Ég held því alveg fullum fetum fram aftur, eins og ég hef alltaf gert í fjárlagaumræðunni hingað til, að ekki sé verið að fara eftir (Forseti hringir.) lögum um opinber fjármál í meðhöndlun fjármálaáætlunar og fjárlaga, bara almennt séð.