150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

lóðagjöld á bújörðum og skattalegir hvatar til að halda jörðum í ábúð.

[13:47]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hæstv. ráðherra hvernig hann tekur á málinu. Ég verð aðeins rólegri. Við getum rætt um fyrirkomulag á skattheimtu bújarða en ég hefði kosið að við værum þá að nálgast málið út frá því hvernig við getum hagað skattheimtu á bújörðum til að styrkja búfestu um allt land, ekki eins og mér virðist vera, að verið sé að opna á þann möguleika að auka fremur álögur á bújarðir og aðrar jarðir á Íslandi. Það er ekki rétta nálgunin. Rétta nálgunin er að spyrja okkur: Hvernig getum við létt undir og aukið búfestu á Íslandi? Það er t.d. hægt með því að taka höndum saman við hv. þm. Harald Benediktsson og nokkra aðra þingmenn úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki sem vilja gera kynslóðaskipti auðveldari þegar kemur að bújörðum og í rauninni öllum atvinnurekstri, þ.e. smárekstri, svokölluðum fjölskyldufyrirtækjum. Það frumvarp liggur fyrir á þingi og ég skora á þingheim að taka höndum saman við hv. þm. Harald Benediktsson og félaga hans og afgreiða það frumvarp og gera ungu fólki það kleift að taka við búum foreldra sinna eða taka við rekstri litla fyrirtækisins sem foreldrar hafa byggt upp hörðum höndum í gegnum áratugina. Þetta er aðferðafræði sem mér hugnast en ekki hugmyndir um það að fara á einhvern hátt að stuðla að aukinni gjaldtöku af landi, ekki síst þegar kemur að bændum.