150. löggjafarþing — 37. fundur,  28. nóv. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:57]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður og framsögumaður fór ágætlega yfir öll þau rök sem stæðu til þess að afnema þennan skatt, sérstaklega við þær kringumstæður sem eru í atvinnulífinu núna, þar sem er einmitt kólnun, þar sem er samdráttur í fjárfestingu í einkageiranum og þar sem heimilin halda að sér höndum. Við sjáum m.a. í nýbirtum tölum um afkomu ríkissjóðs á fyrstu níu mánuðum þessa árs að þessi kólnun er farin að bíta verulega í. Á sama tíma fáum við líka fréttir af því að þrátt fyrir vaxtalækkanir Seðlabanka Íslands séu bankar að hækka álögur á viðskiptavini sína, m.a. vegna þess að hér eru lagðar fordæmalausar álögur af hálfu hins opinbera á fjármálakerfið. Það kemur ágætlega fram í hvítbók sem vitnað er til í nefndaráliti meiri hlutans að þessar álögur eru áttfaldar á við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar.

Þess vegna hlýt ég að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að ekki sé riðið á vaðið hvað þessi gjöld varðar og þau lækkuð myndarlega akkúrat núna þegar mest þörf er á í stað þess að dreifa því í einhverjum smáskammtalækningum langt fram á næsta kjörtímabil? Það er alveg augljóst í þessu samhengi, hefur ítrekað verið bent á og kom ágætlega fram í máli hv. þingmanns, að þetta er dæmi um álögur sem leggjast beint á viðskiptavini bankanna, skattar sem í raun eru greiddir af heimilum og fyrirtækjum og koma sennilega hvað verst niður á smærri fyrirtækjum og almenningi í landinu.

Þess vegna spyr ég hv. þingmann: Hvernig stendur á því að þetta er dregið svona á langinn í stað þess að ganga fram með myndarskap núna, a.m.k. að byrja á því að helminga þennan skatt strax á næsta ári?