150. löggjafarþing — 38. fundur,  2. des. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við í Samfylkingunni leggjumst gegn þessu frumvarpi. Við viljum núna, þegar ríkið er með nánast allt bankakerfið í sínum höndum, að það verði skipulagt til framtíðar og að við gerum á kerfinu þær breytingar sem gagnast best almenningi í landinu og venjulegum fyrirtækjum. Þegar við höfum gert það og skipt upp viðskiptabankastarfsemi og fjárfestingarbankastarfsemi skulum við skoða skattlagninguna og ákveða hvernig hún verður. Það er ekki nægilega gott að vera sífellt að hræra í skattumhverfi, hvort sem það er hjá bönkum eða öðrum. Þess vegna skulum við byrja á að breyta kerfinu eins og við sjáum það best þjóna okkur til framtíðar og síðan taka upp skattinn og skoða hvernig við ætlum að hafa hann.